Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hertar reglur fyrir ferðalanga sem ætla til Bretlands

epa09612402 A commuter at London Bridge station in London, Britain, 30 November 2021. The UK government has made mask wearing mandatory on public transport and in shops in the wake of the spread of the Omicron variant of coronavirus. Covid-19 booster rollout is also set to be expanded to tackle the new variant.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fólki sem hyggur á ferðalög til Bretlands verður skylt að taka kórónuveirupróf áður en lagt er í hann. Þetta segir ríkisstjórnin vera gert til að draga úr hættu á útbreiðslu faraldursins.

Öllum sem orðnir eru tólf ára ber að sýna fram á smitleysi með prófi sem ekki má vera meira en tveggja sólarhringa gamalt. Einnig þarf að taka PCR-próf fyrir lok annars dags dvalar í landinu og halda sig til hlés þar til neikvæðar niðurstöður liggja fyrir. Einu gildir hvort fólk er bólusett eða ekki.

Nýju reglurnar taka gildi næstkomandi þriðjudag að sögn Sajid Javid heilbrigðisráðherra. Hann staðfestir í samtali við breska ríkisútvarpið að eftir tilkomu omíkron-afbrigðsins vilji ríkisstjórnin kaupa sér tíma meðan næstu skref eru metin og ákveðin.

Hratt verði brugðist við um leið og nýjar upplýsingar liggi fyrir. Nígería bætist á rauðan lista Breta á mánudag sem þýðir að ferðafólk þaðan verður að dvelja á sóttkvíarhóteli í tíu daga eftir komuna til Bretlandseyja. Dvölin þar getur verið kostnaðarsöm.

Tilfellum af Omíkrón-afbrigðinu fjölgar sífellt í Bretlandi og næstflest smitanna má tengja við Nígeríu en Suður-Afríka trónir enn efst á þeim lista. Tíu lönd í sunnanverðri Afríku hafa bæst við rauðan lista stjórnvalda frá því omíkron-afbrigðisins varð vart 25. nóvember síðastliðinn. 

Javid hvetur almenning tl að þiggja örvunarskammt um leið og hann verður í boði, það sé sterkasta vörnin gegn kórónuveirunni. Forsvarsmenn ferðaiðnaðarins á Bretlandi óttast að þessar nýjustu ráðstafanir skapi óvissu og dragi úr ferðavilja fólks.