Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Fagna hækkun en segja kerfið enn of flókið

05.12.2021 - 19:37
Barnabótakerfið er of flókið og tekur ekki mið af hagsmunum barna. Þetta segir hagfræðingur hjá BSRB. Hún fagnar þeim hækkunum sem boðaðar eru í nýju fjárlagafrumvarpi en segir markmiðum kerfisins hvergi náð. Þá sé það áhyggjuefni að útgjöld til kerfsins aukist ekki á milli ára.

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, sem var afgreitt til fjárlaganefndar í gær, er lagt til að barnabætur hækki um allt að 5,8%. Þá hækka svokölluð skerðingarmörk, en með því er átt við að fólk getur verið með hærri tekjur áður en bæturnar fara að skerðast. 

Hækkunin verður mismikil eftir hjúskaparstöðu og tekjum fólks, til dæmis hækka bætur hjóna með 9,1 milljón í árstekjur mest eða um 104.700 á ári, en hjá einstæðu foreldri með 4,5 milljónir í árstekjur nemur hækkunin 86.200 krónum á ári og foreldrar í þeirri stöðu fá hæstu barnabæturnar

„Barnabætur eru reiknaðar út frá tekjum foreldra, hjúskaparstöðu foreldra, mismunandi skerðingarprósentur eftir fjölda barna - mismunandi bætur eftir aldri barna,“ segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur BSRB. Það er þrepaskipt líka, þannig að þetta er gríðarlega flókið kerfi.“

Sigríður segir BSRB fagna fyrirhuguðum hækkunum. „En það sem við höfum áhyggur af er að það er talað um það í fjárlagafrumvarpinu að þetta muni ekki kalla á aukin útgjöld í barnabótakerfinu. Börnum er að fjölga þannig að þá virðast heildaráhrifin af þessari hækkun ekki skila sér. Þannig að það er erfitt að fullyrða um að þetta sé almenn kjarabót fyrir barnafjölskyldur á Íslandi. “

BSRB hefur lengi kallað eftir breytingu á barnabótakerfinu þannig að það verði líkara því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. „Að fjölskylda sem er með börn á framfæri og fjölskylda sem ekki er með börn á framfæri með sömu tekjur  - þú sért að jafna ráðstöfunartekjur þessara hópa. Það er markmið barnabótakerfisins.“

Og gerir íslenska barnabótakerfið það? „Nei, það gerir það engan veginn. Nema í allra, allra tekjulægstu hópunum.“