Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Enn er glímt við eld í stóru skipi utan við Gautaborg

05.12.2021 - 01:56
Mynd með færslu
 Mynd: Ann-Britt Boll - SVT
Sænska strandgæslan býst ekki við eldur um borð í flutningaskipinu Almirante Storni úti fyrir Gautaborg í Svíþjóð verði endanlega slökktur fyrr en með morgninum.

Eldurinn kviknaði í timburfarmi í skipinu um hádegi í dag. Strandgæslan beitir nú Poseidon stærsta skipi sínu í baráttunni við eldinn. Flutningaskipið er 177 metra langt og siglir undir líberískum fána.

Sænska ríkisútvarpið greinir frá því að víðtækar björgunaraðgerðir standi yfir studdar af þyrlum og skipum víða að, til dæmis frá Danmörku, Portúgal auk þeirra sænsku.

Skipið liggur skammt úti fyrir skerjagarðinum við Gautaborg og sést eldurinn því vel úr landi. Anders Lännholm sem stýrir björgunaraðgerðum úr landi segir að ekki gangi vel að bleyta timbrið þar sem því er vafið í plast og því logi eldurinn ennþá glatt.

Valdemar Lindekrantz talsmaður strandgæslunnar segir áhöfn skipsins nokkuð örugga þar sem hún heldur til nærri skutnum í mikilli fjarlægð frá eldinum. Þyrlur bíði þó átekta ef nauðsynlegt reynist að bjarga áhöfninni frá borði. 
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV