Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Andri tók umdeildar ákvarðanir í þessari þáttaröð

Mynd:  / 

Andri tók umdeildar ákvarðanir í þessari þáttaröð

05.12.2021 - 21:55

Höfundar

Síðasti þáttur Ófærðar, líklega nokkurn tíma, var sýndur á RÚV í kvöld þegar þriðju seríu lauk með látum. Eins og venjulega ratar hlaðvarpið Með Ófærð á heilanum á streymisveitur strax að þætti loknum. Athugið að þessi hlaðvarpsþáttur og færsla innihalda spennuspilli svo það er ekki ráðlegt að hlusta eða lesa lengra fyrr en horft hefur verið á lokaþáttinn.

Það er ljóst að enginn þeirra spekúlanta sem heimsótt hefur hlaðvarpsþáttinn Með Ófærð á heilanum í haust hafði gert sér í hugarlund hvert sagan stefndi í raun. Í ljós kom að það var Bergur, fíkniefnabaróninn með varasófann og sundlaugina, sem myrti vin sinn Ívar þar sem Ívar drap Línu systur hans eftir að hún sagði honum að hún hefði sofið hjá pabba hans. Hann hafði um margra ára skeið fjárkúgað Kristján, föður Ívars, um margar milljónir á ári til að halda uppi lúxuslífsstíl sínum, gegn því að hann segði engum frá framhjáhaldinu með Línu. Andri Ólafsson sem rekinn var úr lögreglunni er kominn í fangelsi eftir að hafa skotið Berg en hlaut vægan dóm og lítur á fangelsisvistina sem hvíldarinnlögn. 

Réttlætinu fullnægt þegar Andri var fangelsaður

Guðmundur Felixson sviðslistamaður og Bylgja Borgþórsdóttir hlaðvarpsstýra Morðkastsins kíktu til Snærósar Sindra og fóru yfir lokaþáttinn og ræddu líka um seríuna sem heild. Þau eru sammála því að það hafi verið maklegt að dæma Andra í fangelsi fyrir að drepa Berg. „Ég held að réttlætinu hafi alveg verið fullnægt þarna,“ segir Bylgja og Guðmundur tekur undir. „Það kom líka fram að hann hefði ekki leyfi til að bera þetta vopn.“ Bylgja segir þó að Andri sé enginn glæpamaður en hann hafi alls ekki átt að taka í gikkinn.

Eins og börn sem vilja ekki hlýða

Guðmundur segir að Andri hafi í raun tekið margar undarlegar ákvarðanir í þessari þáttaröð. „Andri Ólafsson og þessir gæjar þarna, Trausti og Ísak, þeir eru bara eins og börn sem vilja ekki hlýða yfirmönnum. Eru bara: Hva, eigum við bara að sitja hérna og gera ekki neitt? Já, auðvitað eigið þið að gera það, þið eruð ekki hluti af þessari rannsókn,“ segir Guðmundur.

Ekkert að frétta með Möggu Vill-karakterinn

Það var margt sem kom á óvart í lokaþættinum og Guðmundur furðaði sig á því að saga Ásu, sem leikin er af Margréti Vilhjálmsdóttur, hefði ekki tekið á sig stærri mynd en raun bar vitni.  „Það var ekkert að frétta með Möggu Vill-karakterinn,“ segir hann. „Hún var að sofa hjá honum en það var ekkert annað sem hún var að fela.“

Reyndist bara vera blíður lítill pabbastrákur

Bylgja segist ekki hafa verið ánægð með allt við sögulokin. „Þetta er endir og ég er þakklát fyrir það því ég hata allt sem endar ekki, en þetta er rosalega mikið build up í mörgu fyrir rosalega lítið,“ segir hún. „Atli Rafn, við erum búin að bíða eftir því hvaða ógeð hann er en svo er hann bara þarna. Cast-ið er líka þannig að það er stjarna ofan á stjörnu og maður beið bara eftir því hver gerði hvað. Landadeilurnar sem eru rauði þráðurinn í gegnum alla seríuna, það var ekki neitt og allt í einu er Gunnsi minn bara kominn heim til pabba síns, tók fráhvörf greinilega létt í allt of stórri peysu. Rosalega mikið varð síðan að engu einhvern veginn. Hann er bara blíður lítill pabbastrákur.“

Uppgjör Andra við móður sína

Guðmundur er sammála því að það hefði mátt sjá meira ris í ýmsum söguþráðum en honum fannst saga Andra Ólafssonar ná góðum boga. „Þetta var svolítið sagan hans þótt maður pældi ekkert sérstaklega í því á meðan sagan var í gangi. Allt þetta með hans uppgjör við móður sína og serían endar á að hún segir bara: Jæja, ég er stolt en hvíldu þig bara.“

Og Andri virkaði nokkuð sáttur með að vera að fara á Litla-Hraun og Guðmundur er ánægður með hann. „Mér finnst þetta eiginlega bara perfect endir á sögunni hans Andra,“ segir hann.

Hinrika ekki starfi sínu vaxin

Hann bætir því þó við að honum hafi þótt lausnin á landadeilunni afar einföld og eins sagan af blaðakonunni Freyju. Hinrika segir Guðmundur svo að sé afar taktlaus og að hún taki líka oft undarlegar ákvarðanir í starfi, til dæmis þegar hún krafðist þess að fá að yfirheyra Magdalenu á leið í jarðarför sonar hennar. Hann efast um að Hinrika sé sjálf starfi sínu vaxin. „Hún er alveg með í þessu sko,“ Einnig furðaði hann sig á því að hún samþykkti að Andri og Trausti kæmu með sér að yfirheyra Kristján þó þeir hefðu verið settir af í málinu. „Hún tekur þarna einhverja óbreytta borgara með sér í yfirheyrslu þar sem þau koma að manni sem er nýbúinn í sturtu, ryðjast inn til hans ein lögreglukona og tveir menn sem eiga ekkert að vera þarna,“ segir hann.

Þegar þau eru spurð hvort það sé tilefni til að halda áfram með Ófærð og gera aðra seríu svarar Bylgja: „Er þetta ekki bara fínt?“ Guðmundur tekur undir það. „Mér finnst gaman að skilja Andra eftir þarna og ímynda mér hvaða líf hann á fram undan. Mér finnst enginn sögubogi sem þarf að loka í þessum heimi.“

Hér eru allir þættir hlaðvarpsins Með Ófærð á heilanum aðgengilegir í spilara RÚV.