Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Öll omíkron-smitin tengjast Akranesi

04.12.2021 - 13:04
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að öll staðfest smit með omíkron-afbrigðinu sem greinst hafa hér á landi tengist Akranesi. Ekki sé þó ólíklegt að afbrigðið sé búið að dreifa sér víðar um samfélagið.

Tíu hafa greinst með omíkron-afbrigði kórónuveirunnar hér á landi. Fyrsta smitið greindist á Akranesi í byrjun vikunnar.

Þórólfur segir þau smit sem hafa verið að greinast á undanförnum dögum með þessu afbrigði tengjast Akranesi.

„Ég er ekki búinn að fá alveg lokaniðurstöðuna en mér sýnist þetta tengjast allt saman,“ segir Þórólfur. Hann telur þó líklegt að afbrigðið sé búið að dreifa sér víðar um samfélagið.

Um hundrað til 150 smit hafa að meðaltali verið að greinast hér á landi á síðustu dögum. Þórólfur segir að bylgjan sé á hægri niðurleið.

„Ef maður skoðar kúrfuna til lengri tíma þá er þetta að mjakast niður,“ segir hann.

Núverandi reglugerð um samkomutakmarkanir fellur úr gildi á miðvikudag. Þórólfur ætlar að senda heilbrigðisráðherra minnisblað um helgina með nýjum tillögum.

„Það er óvissa í kringum þetta omíkron-afbrigði. Hvernig það hegðar sér, hvernig það smitast og hvernig bólusetningin verndar. Það setur vissulega strik í reikninginn. Það þarf bara að taka tillit til þeirra aðstæðna sem uppi eru, hvernig faraldurinn er og hvaða afbrigði eru, hvernig verkunin á bólusetningunni er og svo framvegis. Það þarf að taka tillit til allra þessara þátta í mínum tillögum,“ segir Þórólfur.