Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Um omíkron: „Eitthvað mjög mikið gerst á skömmum tíma“

Mynd: Sigurður K. Þórisson / RÚV
Omíkron-afbrigðið er róttækasta breytingin sem orðið hefur á kórónuveirunni. Erfðafræðingur segir að það veki ugg hversu miklar breytingarnar séu. Enn sé þó ekki ljóst hvort þær geri það skaðlegra en önnur afbrigði. Þetta nýjasta afbrigði hefur þó þróast út frá frumgerðinni en ekki af delta-afbrigðinu. Mun meiri ástæða er til að þróa bóluefni gegn þessu nýjasta afbrigði en öðrum, segir erfðafræðingur.

Delta-afbrigði kórónuveirunnar er nú orðið landsmönnum vel kunnugt með sinni miklu hæfni til að smita. Það sem veldur þessu er að broddarnir utan á veitunni eru með bindiprótein sem hefur stökkbreyst frá frumgerð veirunnar. Þessa þróun hefur omíkron-afbrigðið tekið lengra. 

„Það sem gerir omíkron sérstakt er að það er mjög mikill fjöldi stökkbreytinga í erfðamenginu miðað við til dæmis aðrar gerðir eða upprunalegu gerðina,“ segir Arnar Pálsson, erfðafræðingur við Háskóla Íslands.

Delta-afbrigðið er með mikla smithæfni og dreifði sér mjög hratt. En omíkron er með miklu fleiri breytingar og hefur þróast á mjög skömmum tíma út frá frumgerð veirunnar.

„Þannig að það hefur eitthvað mjög mikið gerst á skömmum tíma í þróun þessarar veiru og það eru alls kyns tilgátur um hvað það var. En afleiðingin er sú að við erum komin með nýtt afbrigði sem er töluvert frábrugðið og við vitum ekki almennilega hvaða virkni það hefur eða hvernig það mun herja á okkur,“ segir Arnar.

Allur þessi fjöldi stökkbreytinga í omíkron gerir vísindamenn uggandi en þó er ekki vitað hvort þetta eru skaðlegar breytingar eða ekki. Þrjátíu af fimmtíu breytingum eru í bindiprótíni veirunnar.

„Það eru þá broddarnir sem standa út úr veiruögninni. Þá notar hún þetta til þess að bindast við einhver protín á frumunum okkar. Þetta er þá lykillinn sem hún notar til að komast inn í frumurnar okkar en þetta er þá líka það sem er utan á veirunni og gerir mótefnunum okkar kleift að hlutleysa,“ segir Arnar.

Arnar segir ekki komið í ljós hvort afbrigðið sleppi fram hjá bóluefnum.

„Þetta er róttækasta breytingin sem veiran hefur boðið okkur upp á og það er dálítið líklegt að það þurfi að breyta bóluefnum í kjölfarið,“ segir Arnar.

Hann hvetur alla til að þiggja bólusetingu og örvunarbólusetningu og ástunda persónulega sóttvarnir.