Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ráðherra skipi framvegis sóttvarnalækni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Samsett
Heilbrigðisráðuneytið leggur til að sóttvarnalæknir verði framvegis skipaður af ráðherra en ekki landlækni og að fjölskipuð farsóttarnefnd taki að hluta við tillögugerð um opinberar sóttvarnaráðstafanir af sóttvarnalækni. 

Þetta segir í áformum um frumvarp til sóttvarnalaga sem birt hafa verið til umsagnar í samráðsgátt.

Skýrari löggjöf

Enn fremur er lagt til að breyta uppröðun og kaflaskiptingu sóttvarnalaga til að gera löggjöfina aðgengilegri og skýrari. Þá er lagt til ákvæði sem fjallar um skyldur flugrekenda og rekstaraðila skipa á farsóttartímum. „Um er að ræða ákvæði sem myndi leysa af hólmi sambærilegt ákvæði til bráðabirgða í núgildandi lögum um loftferðir,“ segir í áformunum.

Ráðherra hefur skipað starfshóp til að skrifa drög að frumvarpi og er áætlað að drögin berist ráðherra fyrir 1. febrúar. Í starfshópinn var tilnefnt fólk frá heilbrigðisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, embætti landlæknis, sóttvarnalækni, Sóttvarnaráði, Landspítala og ríkislögreglustjóra.

Gildandi lög duga

Starfshópurinn telur það ekki þannig að gildandi lög og reglur dugi ekki í mótspyrnu gegn farsóttum en rétt sé að skýra betur ákvarðanatöku þegar opinberar sóttvarnaraðgerðir eru ákvarðaðar.

„Þá er jafnframt rétt að skýra stöðu sóttvarnalæknis innan stjórnsýslunnar, t.a.m. um að sóttvarnalæknir hafi tiltekið sjálfstæði gagnvart öðrum embættum og að sóttvarnalæknir sé skipaður af ráðherra.“

Þórgnýr Einar Albertsson