Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Óljóst með tilslakanir í næstu viku

03.12.2021 - 19:25
Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar (B)
Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar (B) Mynd: RÚV
Heilbrigðisráðherra segir óljóst hvort hægt verði að slaka á samkomutakmörkunum í næstu viku vegna omíkron-afbrigðis kórónuveirunnar. Von er á minnisblaði frá sóttvarnalækni um helgina um næstu skref í sóttvörnum.

 

Núverandi reglugerð um samkomutakmarkanir rennur út á miðvikudag í næstu viku. Samkomutakmarkanir voru hertar um miðjan síðasta mánuð þegar smitum byrjaði að fjölga og álag að aukast á heilbrigðisstofnunum. Þá sagði sóttvarnalæknir að nauðsynlegt væri að herða aðgerðir á meðan unnið væri að því að ná víðtæku ónæmi í samfélaginu með örvunarskammti bóluefna.

Rúmlega 113 þúsund manns hafa nú fengið örvunarskammt.

Hins vegar er óljóst hvort bóluefnin dugi nægilega vel gegn omíkron-afbrigði veirunnar sem nýlega greindist hér á landi.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir að þetta geti sett strik í reikninginn og óvíst hvort hægt verði að fara í tilslakanir.

„Ég myndi segja að þetta nýja afbrigði kannski valdi því að við þurfum að skoða hlutina aðeins betur áður en við tökum einhverjar slíkar ákvarðanir. Og ég sýni því bara skilning en bind enn vonir við það að við getum tekið slíkar ákvarðanir. En nú við verðum við auðvitað að bíða og sjá. Þetta segi ég með fyrirvara, ég á eftir að sjá þessi gögn og tillögur og minnisblað frá Þórólfi,“ segir Willum Þór.

Stjórnvöld hafa einnig unnið að því á síðustu mánuðum að fjölga hjúkrunarrýmum til að draga úr álagi á Landspítalanum. Í næstu viku verður opnuð sérstök covid-deild á hjúkrunarheimilinu Eir fyrir aldraða covid-sjúklinga sem þurfa á sólarhringsaðstoð að halda.

„Svo erum við núna í fjárlögum með ýmsar ráðstafanir og aukið fjármagn til þess meðal annars að opna nýja sóttvarnadeild, endurhæfingardeild á Landakoti og þar skapast ný rými. Og ný hágæslurými á spítalanum sem tekur svona aðeins álagið af gjörgæslunni,“ segir Willum.

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV