Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Mikill halli sveitarfélaga á rekstri málefna fatlaðra

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Það stefnir í að halli sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra, á rekstri málefna fatlaðra, verði á þriðja hundrað milljóna króna á þessu ári. Þá lítur út fyrir að tekjuframlag Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaganna minnki um 120 milljónir króna frá síðasta ári.

Öll sveitarfélögin á Norðurlandi vestra starfa saman að málefnum fatlaðra í fjórðungnum. Sveitarfélagið Skagafjörður leiðir samstarfið og ber ábyrgð á rekstri og faglegri umsjón. Húnaþing vestra, Húnavatnshreppur og Blönduósbær hafa nú öll lýst þungum áhyggjum af sífellt auknum kostnaði við málaflokkinn og segja að úr því verði að bæta.

Viðbótarframlög sveitarfélaganna á þriðja hundrað milljóna

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði, segir stefna í mikinn halla í rekstrinum í ár. „Fyrir utan það útsvarshlutfall sem fylgir málaflokknum, sem eru sem sagt tekjur ríkisins inn í málaflokkinn og þá hlutfall frá Jöfnunarsjóði, stefnir í að viðbótarframlag sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra á árinu 2021 verði talsvert á þriðja hundrað milljónir. Sem er þá hallinn sem þau þurfa að bera.“

Minnkandi framlög út Jöfnunarsjóði

Þetta sé mun meiri halli en árin á undan. Ein helsta skýringin sé sú að notendum þjónustunar á landsvísu hafi fjölgað mikið milli ára og þá minnki það framlag sem hvert og eitt sveitarfélag fær úr Jöfnunarsjóði. „Hjá okkur er útlit fyrir að þetta séu um 120 milljónir sem sé lækkun á Norðurlandi vestra á tekjujöfnunarframlagi Jöfnunarsjóðs.“

Skortir framlög frá ríkinu í málaflokkinn

Hann segir sveitarfélög á öllu landinu glíma við sama vanda og á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í haust hafi komið skýrt fram að það skorti framlög frá ríkinu í málaflokkinn. Nú sé þó í gangi úttekt á vegum félagsmálaráðuneytisins á öllum þessum rekstri og niðurstöðu þeirrar vinnu sé að vænta upp úr áramótum. „Þannig að það er nú vonandi að þetta leiði það í ljós hvernig staðan er og að það komi þá aukið framlag frá ríkinu inn í málflokkinn.“

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV