Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mikill fjöldi smita í litlum bæ á Grænlandi

03.12.2021 - 02:45
Fáni Grænlands blaktir við hún
 Mynd: KNR-grænlenska ríkissjónvarpi - KNR
Langstærstur hluti nýrra kórónuveirusmita á Grænlandi greindist í Qasigiannguit, bæ í vestanverðu landinu á suðausturströnd Diskó-flóa. Af þeim 87 nýju smitum sem tilkynnt var um í dag eru 53 í bænum. Seinast var greint frá nýjum smittölum í Grænlandi á mánudaginn var.

Henrik L. Hansen landlæknir á Grænlandi segir að umfangið hafi komið sér á óvart en hann kveðst þó bjartsýnn á að vel takist til við að stöðva útbreiðsluna í bænum. Frá þessu er greint á vef grænlenska ríkisútvarpsins KNR.

Smitum fjölgaði mjög í Upernavik á norðvesturhluta Grænlands í síðustu viku. Hansen segir að þótt illa hafi gengið að draga úr útbreiðslunni þar hafi engar tilkynningar borist um alvarleg veikindi. 

Hann telur að um helmingur íbúanna þar hafi nú þegar veikst en þar hafa börn orðið verst úti.

Vegna útbreiðslunnar telja yfirvöld ekki skynsamlegt að reyna að hemja faraldurinn þar. Þess í stað er að lögð áhersla á að allir fái þá hjálp sem þeir þurfa.

Langvarandi rafmagnsleysi í Nuuk höfuðstað Grænlands hefur haft mikil áhrif á störf landlæknisembættisins líkt og annarra. Rafmagnsleysið hefur tafið greiningu smita og smitrakningu en öll starfsemi hefur legið niðri löngum stundum.

Auk þess hefur aðgangur að Netinu verið takmarkaður og símar virkað stopult. Það varð til þess að nokkrir dagar liðu milli þess að uppfærðar tölur um ný smit voru birtar á vef Landlæknisembættisins grænlenska.