Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gerir ráð fyrir omíkron í nýju minnisblaði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sóttvarnalæknir gerir ráð fyrir meiri útbreiðslu omíkron-afbrigðis kórónuveirunnar í minnisblaði sem hann ætlar að skila heilbrigðisráðherra um sóttvarnaaðgerðir um helgina. Ekki hafa greinst smit af þessu afbrigði utan Akraness. 

Lyflækningadeild Sjúkrahússins á Akranesi er nú í sóttkví eftir að þar greindist smit af omíkron-afbrigðinu. „ Það er ekki búið að staðfesta með raðgreiningu nema þrjú tilfelli og það eru fjögur ennþá í skoðun. En sterklega grunuð,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. „Það gæti vel verið að það ætti eitthvað eftir að koma upp í smitrakningunni, en ég veit ekki um fleiri.“

Hvernig gengur smitrakning? „Hún gengur bara vel.“

Einskorðast þetta við Akranes? „Já, eins og staðan er núna, þá er þetta í kringum Akranes.“

Þórólfur segir óljóst hvernig bóluefni duga gegn omíkron. „Það er nokkrum spurningum ósvarað varðandi það,“ segir hann.

Eru einhverjir þeirra sem hafa greinst með omíkron sem hafa áður greinst með COVID-19? „Ekki hér.“

Núverandi sóttvarnatakmarkanir gilda fram á miðvikudaginn. Þórólfur vinnur nú að nýjum tillögum til heilbrigðisráðherra sem hann stefnir á að senda frá sér um helgina. Hann vildi ekki segja til um hvað í þeim muni felast, en spurður hvort  tilkoma omíkron setti mark sitt á þær sagði hann svo vera.

„Já, það gerir það þessi óvissa. Það er verra að láta taka sig í bólinu með nýtt og verra afbrigði þannig að vissulega þarf að taka tillit til þess.“

Heldurðu að omíkron sé orðið talsvert útbreiddara heldur en skimanir gefa tilefni til? „Já, það held ég. Ég veit ekki með útbreiðsluna hér, hér erum við að raðgreina alla. Það er ekki þannig í flestum öðrum löndum og þess vegna held ég, miðað við þær upplýsingar sem maður sér að þetta sé meiri útbreiðsla en við teljum. “