Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fátækir eigi erfiðara nú en oft áður

03.12.2021 - 18:29
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Stór hópur í samfélaginu kvíðir jólunum og veit ekki hvernig hann á að gefa börnum sínum jólagjafir. Fátækir eiga erfiðara nú en oft áður. Þetta segir samhæfingarstjóri PEPP, grasrótarsamtaka fátækra á Íslandi.

 

Pepp aðstoða þá sem glíma við fátækt og félagslega einangrun. Þau er hluti af alþjóðlegum samtökum sem starfa í 32 löndum og hafa verið starfrækt hér á landi í um 10 ár. 

Ásta Þórdís Skjalddal, samhæfingarstjóri PEPP samtakanna á Íslandi segir fleiri fátæka eiga í vanda fyrir jólin nú en oft áður.

„Það eru miklu fleiri nýir að leita aðstoðar í ár. Þannig að þetta er fólk sem er að taka sín fyrstu skref. Ég þekki það af eigin reynslu frá því að ég var í þessum sporum að þetta eru ofboðslega erfið skref að stíga þegar þú kemur inn nýr til að leita þér aðstoðar. Þetta eru þung og erfið spor og þau marka mann svolítið.“

Laun og bætur hafi ekki hækkað til jafns við verðlag síðustu mánuði.

„Þeir sem leita sér jólaaðstoðar, þeir hafa verið að fá minna. Minna af mat í úthlutunum og þar sem að þau fá styrki í formi Bónuskorts eða eitthvað slíkt þá fá þau minna fyrir peninginn af því að vörurnar hafa einfaldlega hækkað. Þannig að já, það er stór hópur í samfélaginu sem bara virkilega kvíðir jólunum og veit ekki hvernig það á að gefa börnunum sínum jólagjafir. Það er okkar tilfinning að þetta séu erfiðari jól en oft áður.“

Þeir sem séu í mestum vanda séu einstæðir foreldrar á örorkulífeyri, þá eldriborgarar og hælisleitendur.

 „Þannig að það eru þessir þrír hópar sem að leita mest til okkar.“

Ýmis hjálpar- og góðgerðarsamtök aðstoði fólkið með gjöfum og peningum. Einn hópur virðist þó skilinn útundan.

„Ég fór að kynna mér hvert væri hægt að leita núna fyrir einstæðinga og mér var sagt að það væri bara hvergi tekið á móti umsóknum fyrir einstaklinga. Það eru allir að sérhæfa sig í einhverjum hópum en virðist vera að einstæðingar hafi orðið útundan þessi jólin. Og það er alveg sama þó að prósentan sé kannski eitthvað lægri hér á landi en annars staðar, þetta er jafn erfitt fyrir þá sem búa við hana og í hinum löndunum. Jafnvel erfiðara vegna þess að það er talið að það sé ekki fátækt hér á landi en hún er svo sannarlega til staðar.“

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV