Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Trans manneskja í fyrsta sinn ráðherra í Svíþjóð

02.12.2021 - 10:20
Lina Axelsson Kihlblom, ráðherra skólamála. - Mynd: EPA-EFE / TT NEWS AGENCY
Konur eru í meirihluta nýrrar ríkisstjórnar í Svíþjóð sem kynnt var í gær. Þær eru tólf en karlarnir ellefu. Í ríkisstjórninni er einnig fyrsti ráðherrann á Norðurlöndum sem er trans manneskja. Lina Axelsson Kihlblom, sem fór í kynleiðréttingu á tíunda áratug síðustu aldar, er ráðherra skólamála.

Málefnið er henni ekki ókunnugt því hún er fyrrverandi skólastjóri og er vel þekkt í Svíþjóð fyrir störf sín. Helstu stefnumál hennar í embætti eru að minnka umfang einkarekinna skóla fyrir börn og að banna arðgreiðslur af slíkum rekstri.

„Okkur er ljóst að við verðum að ná tökum á velferðarmálunum. Menntakerfið leikur þar afar stórt hlutverk. Jafnvel núna, við umskiptin í græna hagkerfið og þróunina í loftslagsmálunum, þörfnumst við ungu kynslóðarinnar. Þess vegna verður hlutverk menntunar afar mikilvægt. Þörf er fyrir öll börn í framtíðinni. Auðvitað vil ég vera með á því ferðalagi,“ sagði Kihlblom í viðtali við sænska ríkisútvarpið, SVT, í fyrradag þegar nýja ríkisstjórnin var kynnt.  

Madgalena Andersson leiðir nýju ríkisstjórnina og í henni er aðeins einn flokkur, Jafnaðarmannaflokkurinn. Allt fór í loft upp í sænskum stjórnmálum á dögunum. Sama dag og þingið hafði samþykkt Andersson sem næsta forsætisráðherra var fjárlagafrumvarp stjórnarandstöðunnar samþykkt á þinginu. Það gátu Græningjar ekki sætt sig við og sögðu sig úr ríkisstjórninni. Nokkrum dögum síðar samþykkti þingið á ný að Andersson yrði forsætisráðherra. Hún tekur við að Stefan Löfven. Þingkosningar verða í Svíþjóð næsta haust.