Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Sebastian Kurz er hættur í pólitík

02.12.2021 - 17:36
Former Austrian Chancellor Sebastian Kurz announces that he is quitting politics, two months after stepping down as leader amid corruption allegations, during a news conference in Vienna, Austria, Thursday, Dec. 2, 2021. (AP Photo/Lisa Leutner)
 Mynd: AP
Sebastian Kurz, fyrrverandi kanslari Austurríkis, er hættur í stjórnmálum. Hann lét af embætti fyrir nokkrum vikum vegna ásakana um spillingu. Hann sagðist þá ætla að einbeita sér að því að hreinsa nafn sitt, enda hefði hann ekkert gert af sér.

Sebastian Kurz varð kanslari í desember 2017, þá aðeins 31 árs að aldri og þar með yngstur allra þjóðarleiðtoga í lýðræðisríki. Hann sagði af sér í október síðastliðnum eftir að hann var sakaður um að hafa notað almannafé til að greiða fjölmiðlum fyrir jákvæða umfjöllun um hann og flokk hans, Þjóðarflokkinn. Kurz kvaðst ekkert rangt hafa gert og ætlaði að einbeita sér að því að sanna sakleysi sitt.

Það kom því flatt upp á marga þegar hann tilkynnti í dag að hann hefði ákveðið að hætta afskiptum af stjórnmálum. Hann kvað síðustu vikur hafa reynt mjög á sig og dregið úr lönguninni til að taka áfram þátt í pólitík. Nú hlakkaði hann bara til að verja tíma með fjölskyldunni og nýfæddum syni sínum.

Kurz kvaðst ætla að bíða með það fram yfir áramót að byrja að svipast um eftir nýju starfi. Hann ítrekaði sakleysi sitt, og bætti við að hann væri hvorki dýrlingur né þrjótur, heldur venjulegur maður með bæði kosti og galla.