Loðnuveiðar fara hægt af stað og valda nokkrum vonbrigðum. Þetta segir Þorkell Pétursson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK, í samtali við fréttastofu.
Níutíu tonn
Síldarvinnslan sagði í tilkynningu stuttu fyrir hádegi að Bjarni Ólafsson hafi verið búinn að hífa einu sinni og fengið níutíu tonn.
„Veiðarnar ganga frekar rólega. Við erum búnir að vera í sólarhring, frá því um miðjan dag í gær, og þetta fer frekar rólega af stað,“ segir Þorkell. Skipið sé í ágætis lóði en lítill fiskur hafi skilað sér enn sem komið er.
Miklar væntingar
Miklar vonir eru bundnir við loðnuvertíðina. Í nýrri þjóðhagsspá frá Hagstofu Íslands sagði til dæmis að „stærsta loðnuvertíð í tuttugu ár“ sé í vændum og að hún skili um sextíu milljörðum króna í útflutningstekjur.
„Auðvitað eru vonbrigði að þetta fari hægt af stað en það er ekki að ske í fyrsta skipti. Stundum hefur engin loðna veiðst fyrir jól þrátt fyrir að það séu stórir kvótar þannig þetta þarf ekki að koma á óvart. Við höfum veitt milljón tonn án þess að veiða nokkuð fyrir jól,“ segir Þorkell.
Því sé ekki tilefni til að örvænta en vissulega vilji menn frekar að veiðarnar fari betur af stað.