Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Páfi ræðir málefni flóttafólks í heimsókn til Kýpur

02.12.2021 - 04:21
epa09614120 Pope Francis (R), flanked by Mons. Leonardo Sapienza, leads his weekly General Audience in the Paul VI Audience Hall, in Vatican City, 01 December 2021.  EPA-EFE/FABIO FRUSTACI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Frans páfi er væntanlegur í tveggja daga heimsókn til Kýpur í dag. Þar hyggst hann ræða um bága stöðu flóttamanna.

Frá Kýpur heldur páfi til Grikklands en bæði ríkin hafa tekið á móti gríðarmiklum fjölda flóttafólks sem stefnir í átt að ríkjum Evrópusambandsins. Stjórnvöld á Kýpur segja heimsókn páfa vera sögulega. 

Meirihluti Kýpverja tilheyrir grísku rétttrúnaðarkirkjunni en Frans verður annar páfinn til að sækja þá heim. Benedikt XVI heimsótti Kýpur fyrir ellefu árum.

Frans leggur megináherslu á að ræða málefni flóttamanna en kýpversk stjórnvöld telja sig bera óeðlilegan þunga af straumi þeirra yfir Miðjarðarhafið. 

Páfi hefur löngum lýst sorg sinni yfir bágri stöðu flóttafólks og krafist bættra aðstæðna fyrir það. Hann lýsir Miðjarðarhafinu sem víðfeðmum kirkjugarði í ljósi þess hve margt fólk hefur farist þar á leið sinni yfir.

Kýpversk stjórnvöld segja viðræður hafa staðið við Páfagarð um flutning flóttafólks frá eyjunni til Rómar sem væri í anda þess sem Frans gerði árið 2016. Þrjár fjölskyldur á flótta frá Sýrlandi fylgdu honum þá til Ítalíu eftir heimsókn hans til grísku eyjarinnar Lesbos. 

Stór hluti þeirra 25 þúsund kaþólikka sem á eynni býr tilheyrir Marónítakirkjunni sem á uppruna sinn að rekja til Sýrlands. Flestir eru verkamenn frá Filippseyjum og Suður-Asíu. Einnig er fjöldi flóttamanna frá Afríku kaþólskur.

Hápunktur heimsóknar páfa verður messa á fótboltavelli í höfuðborginni Níkósíu. Jafnframt hefur hann boðað til bænastundar á föstudag með föru- og flóttafólki í kirkju sem þjónar fólki af tugum þjóðerna.