Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Líklegt að omíkron hafi dreift sér víða

Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - RUV
Líklegt er að omíkron afbrigði kórónuveirunnar hafi dreift sér víða hér á landi, að mati sóttvarnalæknis. Áhrif þess eru óskrifað blað, segir forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Ekki hafa greinst fleiri smit af þessu afbrigði kórónuveirunnar hér á landi, eftir að það greindist fyrst í gær.

 Íslensk erfðagreining raðgreinir öll jákvæð sýni sem greinast hér á landi og í gær sýndi raðgreining að eitt þeirra var af omíkron-afbrigðinu.

„Það vorum við sem greindum þetta,“ segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.  „Þessi veira er komin svo víða að raðgreiningin ein segir okkur ekki hvaðan þetta form barst til Íslands.“

Omíkron er meira stökkbreytt en önnur afbrigði kórónuveirunnar. „Þessar stökkbreytingar geta gert það að verkum að veiran binst betur við frumur líkamans og veldur þar af leiðandi meiri skaða.  Hinn möguleikinn er líka fyrir hendi, að þessar stökkbreytingar geri það að verkum að veiran bindi ekki eins vel við frumurnar,“ segir Kári.

Hann segir að sá möguleiki sé fyrir hendi að þessar stökkbreytingar veiti veirunni leið framhjá ónæmiskerfi líkamans.

„En sá möguleiki er líka fyrir hendi að þessar stökkbreytingar geri það að verkum að ónæmiskerfið eigi auðveldara með að höndla veiruna. Við vitum ekkert ennþá hvað þetta form af veirunni gerir.“

Ekkert samband á milli stökkbreytinga og skaðsemi

Að mati Kára hafa viðbrögð víða um heim verið of harkaleg. „Menn eru að ætla þessu formi miklu meira afl, meiri kraft, meiri skemmd en við höfum gögn sem sýna fram á,“ segir hann.

Hvers vegna heldurðu að viðbrögðin séu sterkari við þessu afbrigði en sumum öðrum? „Ég held að það sé tiltölulega einföld sýn sem stjórnmálamenn hafa á lífið almennt.  Ég reikna með því að þeir geri ráð fyrr því að það sé einhverskonar línulegt samband á milli fjölda stökkbreytinga og líkana á því að veiran valdi skaða. En slíkt samband er hreinlega ekki til.“

Líklega meira smitandi en önnur afbrigði

Kári segir að skaðsemi omíkron ætti líklega að liggja fyrir fljótlega. „Mér finnst ekki ólíklegt að við höfum einhvers konar gögn sem annaðhvort styðja eða hrekja þá kenningu að þetta sé hættulegra form af veirunni innan tveggja vikna. Ég væri mjög hissa ef það tæki lengri tíma en það.“

Undir þetta tekur Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sem segir mikilvægt að hafa í huga að engar vísbendingar séu um að omíkron valdi meiri skaða en önnur afbrigði kórónuveirunnar,  en margt bendi til þess að það sé meira smitandi en önnur. „Svo erum við ennþá að bíða eftir því hvort bóluefnin virki og verndi. Margir af þeim sem hafa greinst eru fullbólusettir en við þurfum að sjá betur hvernig það spilast.“

Ekki tilefni til hertra sóttvarna

Þórólfur segir líklegt að omíkron hafi dreift sér víða hér á landi.

„Auðvitað er útbreiðslan orðin líklega meiri en við vitum um.  Það hafa ekki fleiri greinst en það munu fleiri greinast, því það eru veikindi í kringum þennan einstakling sem er verið að skoða betur.“

Mörg lönd hafa gripið til aukinna sóttvarna vegna omíkron. Þórólfur segir ekkert tilefni til þess hér, enn sem komið er. „En ef einhverjar nýjar upplýsingar koma í ljós með þessa veiru, að hún hagi sér eitthvað verr en önnur afbrigði þá gæti það breyst. En við erum ekki á þeim buxunum núna.“