Köttur ræður öllu í bókaútgáfu á Patreksfirði

Mynd: Jóhennes Jónsson / RÚV/Landinn

Köttur ræður öllu í bókaútgáfu á Patreksfirði

02.12.2021 - 07:50

Höfundar

Það er í nógu að snúast hjá bókaútgefendum landsins þessa dagana. Birta Ósmann Þórhallsdóttir og kötturinn Skriða eru þar engin undantekning. „Hún ræður öllu, velur inn hvaða bækur prentast og hvernig og velur liti og pappír og ég er eiginlega bara talsmaður hennar og sé um öll mál sem er erfitt fyrir ketti að sinna,“ segir Birta.

Sett í skítverkin 

„Ég get náttúrlega verið með vask-númer og kennitölu og alla þessa praktísku hluti varðandi bókaútgáfuna en ég geri ekkert án þess að ráðfæra mig við hana og hún ráðfærir sig við mig,“ segir Birta.

Er þetta ójöfn verkaskipting? „Já, ég er látin gera svolítið mikið af skítverkum,“ segir Birta. „Bókhaldið – hún nennir ekkert að sjá um það.“ 

Finnst að bækur þurfi að vera gripur

Bókaútgáfan Skriða var stofnuð 2019 og hefur gefið út átta bækur. 

„Mér finnst einhvern veginn að í dag ef að bækur eiga að eiga rétt á því að vera prentaðar þá þurfi þær að vera gripur. Góður pappír og  að handverkið fái að njóta sín - að þær séu bundnar inn og að þetta sé gert fallega, það finnst mér skipta máli.“ 

Engin meðvirkni í samstarfi við kött

Þær Birta og Skriða eru úr Reykjavík en settu bókaútgáfuna á fót þegar þær bjuggu á Hvammstanga - og fluttu hana svo með sér vestur. Þar sem Landinn hitti þær - á heimili þeirra Merkisteini. 

Hvernig er samstarfið við kött? 

„Það er bara virkilega gefandi og skemmtilegt, það er engin meðvirkni hjá henni, þannig að það eru hreinar línur með hvernig allt á að vera.“ 

Hér má horfa á þáttinn í heild sinni