Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Blinken og Lavrov funda í Stokkhólmi vegna Úkraínu

epa09612653 A handout photo made available by the press service of the Russian Foreign Affairs Ministry shows Russian Foreign Minister Sergei Lavrov during a joint news conference with Brazilian Foreign Minister Carlos Franca (not pictured)  following their talks in Moscow, Russia, 30 November 2021. Brazilian Foreign Minister is on a working visit to Moscow.  EPA-EFE/RUSSIAN FOREIGN AFFAIRS MINISTRY / HANDOUT MANDATORY CREDIT / HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - RUSSIAN FOREIGN AFFAIRS MINISTRY
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Sergei Lavrov rússneskur starfsbróðir hans hittast í Stokkhólmi höfuðborg Svíþjóðar á fimmtudag í tengslum við ráðherrafund Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Ætlun þeirra er að ræða málefni Úkraínu.

Stofnunin hefur allt frá því að Rússar réðust inn á Krímskaga árið 2014 haft hönd í bagga með friðarumleitunum gagnvart aðskilnaðarsinnum hliðhollum Rússum í austurhluta Úkraínu.

Undanfarnar vikur hafa vesturveldin og Atlantshafsbandalagið látið í ljós miklar áhyggjur af auknum vígbúnaði Rússa við landamæri Úkraínu. Bandaríkin hafa varað við því að þau muni beita Rússa hörðum þvingunum láti þeir til skarar skríða gegn Úkraínu. 

Rússnesk stjórnvöld þvertaka fyrir að ætla sér að ráðast inn í landið og saka Atlantshafsbandalagið um að kynda undir spennu á svæðinu. Blinken sagðist á fundi bandalagsins í vikunni ekki hafa hugmynd um hvað Vladímir Pútín Rússlandsforseti ætlaðist fyrir. 

Blinken sagðist því hafa gert stjórnvöldum í Kreml grein fyrir því að gripið yrði til þungra efnahagsaðgerða gegn Rússum. Hann sagði jafnframt að eina raunhæfa leiðin til lausnar deilunnar væri við samningaborðið. 

Rússnesk stjórnvöld saka Úkraínumenn sömuleiðis um mikinn hernaðarviðbúnað í austurhluta landsins. Pútín hefur kallað eftir samtali við vesturveldin og krefst tryggingar fyrir því að Atlantshafsbandalagið teygi anga sína ekki nær Rússlandi en nú er.

Úkraína sækist eftir inngöngu í bandalagið en án árangurs enn sem komið er. Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu hefur farið fram á viðræður við Rússa vegna átaka við aðskilnaðarsinna í austrinu sem þegar hafa lagt um 13 þúsund í valinn.