Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Áhyggjur af því að efnahagsbatinn gæti verið brothættur

02.12.2021 - 09:53
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - RÚV
Nefndarmenn í peningastefnunefnd Seðlabankans voru sammála um að hækka þyrfti vexti bankans en greindi á um hversu mikið. Vextir voru hækkaðir um 0,5 prósentur en nokkrir nefndarmenn vildu stíga varlega til jarðar. Áhrif vaxtahækkana væru meiri nú og atvinnuleysi gæti aukist þegar dregið verði úr stuðningsaðgerðum stjórnvalda vegna faraldursins. Því gæti efnahagsbatinn sem náðst hefur eftir að faraldurinn hófst verið brothættur.

Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar Seðlabankans sem er birt á vef bankans. Fundurinn var um miðjan nóvember en vaxtaákvörðunin kynnt 17. nóvember. Vextir voru hækkaðir um 0,5 prósentur og eru nú 2 prósent. Nefndarmenn ræddu hækkanir frá 0,25 prósentum og upp í 0,75. Helstu rök fyrir minni hækkun voru að áhrif vaxtahækkana á greiðslubyrði heimilanna væru meiri nú en áður vegna hærri hlutdeildar óverðtryggðra lána á breytilegum vöxtum. Hækkun hefði því meiri áhrif á heimilin en áður. Þá ætti eftir að koma ljós hver áhrifin verði af samspili vaxtahækkana og aðgerða ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins. Nefndarmenn höfðu áhyggjur af því að atvinnuleysi gæti aukist á ný þegar þeirra njóti ekki lengur við. 

Fréttastofa fjallaði undir lok nóvembermánaðar um áhrif ráðningarstyrkja á atvinnuleysi. Þar kom fram að þeir hefðu nýst vel til að draga úr atvinnuleysi en það sé óvíst hvaða áhrif það hafi þegar þeir renni sitt skeið. Útgjöld Vinnumálastofnunar hafa ekki dregist mikið saman þó atvinnulausum hafi fækkað um 11.700 frá áramótum. 

Nefndarmenn í peningastefnunefnd ræddu einnig möguleika á því að hækka vexti enn meira en um 0,5 prósentur. Helstu rökin fyrir þeim voru að verðbólgan hafi verið þrálátari og verðbólguhorfur versnað. Þá væri kröftugur bati á vinnumarkaði, þrátt fyrir óvissu þar. Þá er einnig hætta á aukinni innfluttri verðbólgu, en hún gæti hækkað verðbólgu hér og þar með verð á þjónustu. Það væri því mikilvægt að stíga fast til jarðar til að bregðast við verðbólgunni strax. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri lagði til hækkun um 0,5 prósentur og allir nefndarmenn studdu tillögu seðlabankastjóra. 

Verðbólga mælist nú 4,8 prósent. Markmið seðlabankans fjarlægjast stöðugt, en þau eru 2,5 prósent. Á fundinum ítrekaði peningastefnunefndin að hún myndi beita þeim tækjum sem hún hefði yfir að ráða til að tryggja að verðbólga hjaðni aftur í markmið innan ásættanlegs tíma.