Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Upplýsingaleki hjá Vinnumálastofnun öðru sinni á árinu

Mynd með færslu
 Mynd:
Persónuvernd hefur borist erindi vegna öryggisbrests í meðferð persónuuppplýsinga hjá Vinnumálastofnun. Það er í annað sinn það gerist á þessu ári.

Fréttablaðið greinir frá þessu í dag en tölvupóstföngum enskumælandi skjólstæðinga stofnunarinnar var í október lekið í fjölpósti varðandi geðheilsumál.

Einnig hafi verið farið óvarlega með persónuupplýsingar í Facebook-hópum á vegum stofnunarinnar þar sem unnið var með sértæk úrræði. Stofnunin baðst afsökunar fimm dögum eftir að upplýsingarnar láku út. Aðgangsstillingum hafi verið breytt í kjölfar kvartana.

Fréttablaðið hefur eftir erlendum ríkisborgara sem fyrir lekanum varð að atvikið geti haft áhrif á traust fólks til ríkisstofnana á Íslandi. Hann hafi þó ekki vitað af honum fyrr en afsökunarbeiðnin barst. 

Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar segir málið strax hafa verið tilkynnt til Persónuverndar. Þar á bæ þykir of snemmt að tjá sig um hve alvarlegt málið sé. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV