Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Umsvifin við Skagastrandarhöfn tvöfaldast milli ára

Mynd með færslu
Skagaströnd. Mynd úr safni Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Blómlegt athafnalíf er nú við höfnina á Skagaströnd. Þar er tvöfalt meiri afla landað miðað við árið í fyrra og þakkar sveitarstjóri aukninguna meðal annars góðum samgöngum frá sveitarfélaginu.

Togarar frá Suðurnesjum landa á Skagaströnd

Togaraútgerð á Skagaströnd lagðist nánast af fyrir nokkrum árum en nú er aftur komið líf á hafnarsvæðið. Alexandra Jóhannesdóttir, sem er hafnarstjóri og jafnframt sveitarstjóri, segir umsvifin við höfnina hafa tvöfaldast milli ára og munar þar mestu um löndun togara Vísis hf frá Suðurnesjum.

„Þetta tímabil í ár sem við erum að vinna með, frá 1. september til loka nóvember, þá eru þetta um 4000 tonn og fyrir sama tímabil í fyrra vorum við með um 1800 tonn,“ segir Alexandra. Ef skoðaðar eru tölur frá árinu á undan hefur verið aukning um 164%.
 

Fagna auknu lífi við höfnina

Alexandra segir að miðin hafi gefið vel en eins séu aðstæður við Skagastrandarhöfn góðar og þar sé rekinn sterkur fiskmarkaður. Það er hins vegar engin fiskvinnsla í bænum svo öllum afla er ekið suður, á höfuðborgarsvæðið.

„Ástæðan fyrir því að þetta getur gengið svona vel er að samgöngurnar eru góðar og það standa vonir til að endurbætur á Skagastrandarvegi, sem er okkar mikilvægasta flutningsleið, klárist á næstu árum.“

Alexandra segir auknar tekjur alltaf vera jákvæðar fyrir hafnarsjóð en segir líka mikilvægt í svo litlu samfélagi sem Skagaströnd er, að fá aukið líf í höfnina. „Við erum mjög ánægð og glöð að sjá þessi auknu umsvif um höfnina hér hjá okkur.“