Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Úkraínuforseti vill ræða við rússnesk stjórnvöld

01.12.2021 - 12:05
epa09614139 Ukrainian President Volodymyr Zelensky speaks during his annual address to lawmakers at the Ukrainian Parliament in Kiev, Ukraine, 01 December 2021. Volodymyr Zelensky delivered to lawmakers his annual speech, which addressed the situation in Ukraine over the last year.  EPA-EFE/SERGEY DOLZHENKO
Dmytry Zelensky, forseti Rússlands, kveðst óhræddur að hitta Vladimír Pútín augliti til auglitis.  Mynd: EPA-EFE
Forseti Úkraínu ætlar að óska eftir beinum viðræðum við rússnesk stjórnvöld um lausn á deilum við aðskilnaðarsinna í austurhéruðum landsins. Fjölmennt rússneskt herlið er saman komið við landamærin, sem veldur áhyggjum í Úkraínu og á Vesturlöndum.

Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, flutti sitt árlega ávarp á þingi landsins í dag. Hann gerði deiluna við aðskilnaðarsinna að umræðuefni, sem hann sagði vera stríð sem staðið hefði í átta ár, allt frá því að Rússar innlimuðu Krímskaga. Forsetinn sagði að enga lausn væri að finna á deilunni nema með beinni aðkomu Rússa. Hann færi því fram á beinar viðræður við æðstu ráðamenn í Moskvu; hann væri ekki hræddur við að hitta Vladimír Pútín forseta augliti til auglitis.

Utanríkisráðuneytið í Kænugarði greindi frá því fyrr í vikunni að 115 þúsund manna rússneskt herlið væri komið að landamærum Úkraínu, á Krímskaga og við austurhéruðin tvö sem aðskilnaðarsinnar, sem fylgja Rússum að málum, berjast fyrir að Úkraínumenn láti af hendi.

Þessi staða hefur sett svip sinn á tveggja daga fund utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsríkja í Riga í Lettlandi. Úkraínumenn eiga ekki aðild að bandalaginu, en eigi að síður mætti Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra þeirra, til fundarins í dag til að gera grein fyrir sjónarmiðum Úkraínustjórnar.

Þá stendur til að Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergei Lavrov, hinn rússneski starfsbróðir hans, hittist í Stokkhólmi á morgun til að ræða deiluna.