
Stjórnarandstaðan: Draumsýnir, kjarkleysi og ójöfnuður
Féllu á fyrsta prófinu
Hópur þingmanna hefur afhjúpað lögbrot, trassaskap og stórkostlega vanvirðingu við lýðræðið undanfarna tvo mánuði. Þetta sagði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra.
Björn Leví sagði framkvæmd síðustu kosninga forkastanlega. Tækifæri hafi gefist til að senda skýr skilaboð um að „ruglið í Norðvesturkjördæmi mætti aldrei endurtaka sig“ en Alþingi hafi ákveðið að gera það ekki. Þannig hafi þingið fallið á fyrsta prófinu og muni þurfa að starfa í skugga efasemda um lögmæti sitt allt kjörtímabilið.
Eina málið sem stjórnarmyndunarviðræður hafi snúist um, sagði Björn Leví, sé hvernig Vinstri græn gætu haldið forsætisráðuneytinu. Málefnin hafi ekki ráðið för heldur það hver stjórnar.
Framhald af brösóttu hjónabandi
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, fór ófögrum orðum um samstarf ríkisstjórnarflokkanna í ræðu sinni í kvöld og sagði það byggja á afturhaldssemi, kjarkleysi og fálæti. Þá líkir hann samstarfi flokkanna við brösótt hjónaband og endurnýjun hjúskaparheitanna hafa komið á óvart.
„Ráðahagurinn átti að skila risaskrefum í loftlagsmálum, stórátaki í menntamálum, auknum jöfnuði og breytingum á stjórnarskrá. Svo ekki sé minnst á orð þáverandi heilbrigðisráðherra um að þau væru mætt til að bjarga heilbrigðiskerfinu“ segir Logi. „Öll loforðin, kannski hjónabandsins virði, hefðu þau gengið eftir.“
Logi segir ríkisstjórnina sannarlega boða pólitískan stöðugleika með því að halda samstarfi sínu áfram. En telur hann dýru verði keyptan. „Hvers virði er pólitískur stöðugleiki sem hvílir á varðstöðu um óréttlæti í sjávarútvegi, gamaldags efnahagsstjórn, sem þjónar helst þeim efnamestu, blindu á nauðsyn alþjóðasamvinnu og viljaleysi til að ráðast gegn ójöfnuði og fátækt“.
Aldrei til peningar fyrir fátækt fólk
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði ræðu forsætisráðherra vera virkilega fallega, draumkennda um ekkert nema vonir og þrár. Hún virtist þó ekki sannfærð um ágæti orðanna.
Inga sagðist hafa vonað að það yrði eitthvað fast í hendi í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar og stefnuræðu forsætisráðherra um það hvað ætti raunverulega að gera fyrir fátækt fólk sem væri uggandi um framtíðina.
Hvað á að gera fyrir börnin og eldri borgara spurði Inga og lýsti eftir raunverulegum aðgerðum. Bankaskattar og veiðigjöld lækkuðu en aldrei eru til peningar fyrir fátækt fólk, sagði Inga. „Mér misbjóða svona stjórnarhættir.“ Hún lýsti ótta um að orðin í stefnuræðu forsætisráðherra yrðu ekkert nema innantómir draumar.
Þjóðin áfram skattpínd
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, sagðist myndu kalla ríkisstjórnina höfuðborgarstjórnina þar sem hún væri fyrst og fremst skipuð ráðherrum af höfuðborgarsvæðinu og hefði þá stefnu helsta að hrinda stefnuskrá Reykjavíkurborgar í framkvæmd.
Bergþór sagði það grundvallarmisskilning hjá forsætisráðherra að skattkerfið fjármagnaði samneysluna. Raunin væri sú að það væri fólkið í landinu og fyrirtækin sem fjármögnuðu samneysluna. Hann sagði að miðað við þennan skilning væri lítil von til breytinga frá því að Ísland yrði áfram meðal þeirra ríkja þar sem landsmenn greiddu hæsta skatta.
Bergþór sagði að tekist hefði að afstýra því stórslysi að áform um hálendisþjóðgarð næðu fram á síðasta kjörtímabili. Fyrir kosningar hefðu frambjóðendur Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sagt að ekkert yrði af þessu en nú ætti vissulega að stofna hálendisþjóðgarð.
Sáttmálinn eins og óskalisti barns
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði að eitt helsta gagn stjórnarandstöðu væri að nefna það sem vantaði í stjórnarsáttmála. Nú væri hins vegar hægt að finna vankanta á nær öllum sáttmálanum.
„Vandamálið er að þetta er ekki pólitík.“ sagði Þorgerður Katrín og líkti stjórnarsáttmálanum við jólagjafaóskalista barna sem teldu til allt það sem þau gætu mögulega óskað sér. Þarna vantaði útfærslu. Þrátt fyrir langan aðdraganda og nýjar umbúðir hefur lítið breyst, sagði Þorgerður Katrín um endurnýjað stjórnarsamstarf.
Þorgerður Katrín sagði að ríkisstjórnin hefði bætt við sig fylgi vegna loforða um úrbætur í málefnum barna. Um þau væri rætt í stjórnarsáttmála en engin tímamörk að finna. Hún sagði að það vantaði ekki upp á góðan ásetning en að aðgerð sem fengist ekki fjármagn til að hrinda í framkvæmd væri bara stefna.