Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Spurningin um lífið, alheimurinn og allt saman

Mynd: Benedikt / RÚV

Spurningin um lífið, alheimurinn og allt saman

01.12.2021 - 12:42

Höfundar

Ljóðin í bókinni eru kraftmikil þó sum þeirra séu vindhögg, segir Gréta Sigríður Einarsdóttir gagnrýnandi um nýjustu ljóðabók Jóns Kalmans Stefánssonar.

Gréta Sigríður Einarsdóttir skrifar:

Málið með stóran almennan sannleika er að án samhengis getur hann hljómað eins og klisja. Í Tímanum og vatninu talar Andri Snær um þetta með stóru hugmyndirnar, við náum hreinlega ekki utan um eitthvað eins og hnatthlýnun fyrr en við fáum frekari upplýsingar og meira samhengi. Við þurfum að ganga úr skugga um að útreikningarnir séu réttir áður en við tökum niðurstöðuna í sátt.  

Nýjasta ljóðabók Jóns Kalmans Stefánssonar ber titilinn Djöflarnir taka á sig náðir og vakna sem guðir. Þetta er í stíl við titlana á sumum fyrri bóka hans, Ýmislegt um risafurur og tímann, Snarkið í stjörnunum og Fjarvera þín er myrkur. Titillinn er tekinn úr einu ljóðanna í bókinni og gefur taktinn fyrir það sem vænta má í henni. 

Ljóðin hafa hvert sitt heiti og er skipt upp í fimm hluta. Þau tengjast þó líka innbyrðis, vísa hvert í annað og öll segja þau frá því  sem fer í gegnum huga manns um miðjan aldur á einum degi frá morgni til kvölds. Ljóðin eru öll sögð í fyrstu persónu og ljóðmælandi er málpípa skáldsins. Hann minnir lesandann reglulega á að hann sé að skrifa ljóðin, rifjar upp minningar og deilir vangaveltum sínum um lífið og tilveruna, guð og dauðann.  

Fyrsti kafli hefst þegar morgunskíman vekur borgina til lífsins. Hóstandi nágranni verður kveikjan að vangaveltum um lífið og dauðann og hlutverk guðs í þessu öllu saman. Það er minning um einhvern sem bjó til djúpa sorg en þó er komin einhver fjarlægð á hana í bili, sárin hafa lokast þó ekki sé enn gróið um heilt. Í næsta hluta fer ljóðmælandi yfir stærra svið og setur samtímann í samhengi við liðna daga. Hann veltir fyrir sér löngu liðnum tímum þegar loftslagsvandamál voru ekki á allra vörum og konur fengu lítið pláss á síðum dagblaðanna. Breytt viðhorf samtímans eru oft hugleikin miðaldra mönnum en það er ekki eftirsjá eftir liðnum tímum, bara tekið eftir því að tímarnir breytast. Kvíðinn yfir hverju verður skilað til komandi kynslóða er endurtekið stef og höfundur ímyndar sér ákærur fyrir fornar syndir kynslóðanna sem þegar er farið að prenta í framtíðinni. Ljóðmælandi veltir fyrir sér breyttum tímum og viðvarandi ógninni af hnatthlýnun. Hann tæpir líka á muninum á hagvexti og hamingju. Breyttir tímar leiða hugann að tregafullum minningum og ABBA-lag getur kveikt óþægilegar tilfinningar. Í þriðja hluta er fjallað um tilgang lífsins, hvers það krefst af okkur og hvað aðrir hafa skrifað um það í gegnum tíðina. Í fjórða hluta er farið að birta til aftur, ný manneskja með halastjörnubros snýr þyngslunum á haus og gerir flissandi ungling úr þungbrýnda skáldinu í fyrri hluta bókarinnar. Þessi hluti fjallar líka um skáldskapinn, svar ljóðmælanda við spurningunni um lífið og dauðann, hans leið til að tala við bæði fortíð og framtíð. 

Textinn í ljóðunum er háfleygur og sparar ekki stóru orðin, eins og ástin, tilveran, lífið. Dauðinn og guð. Það er jafnvægislist að skrifa svona texta, eitt skref til hægri og textinn verður kaldhæðin tilgerð, eitt skref til vinstri og hann er tilfinningavella. Þegar vel tekst til hittir höfundur mann beint í tilfinningarnar en hann nær ekki alltaf að feta þetta einstigi. 

Hér og þar í bókinni vísar textinn í sjálfan sig og þann sem heldur á pennanum. Ljóðmælandinn talar um skrifin og leitina að rétta orðinu fyrir það sem hann á við. Það er eitthvað heiðarlegt við að brjóta fjórða vegginn á þennan hátt, en Jón Kalman geldur fyrir að þetta er ekki fyrsta nýútgefna bókin um þessar mundir sem bítur svona í skottið á sér. Margir höfundar eru að skrifa um að skrifa, og þá helst sjálfa sig að skrifa. Kannski eru þetta áhrif covid að koma í ljós en fyrir næsta ár held ég að við ættum að sjá til þess að rithöfundar landsins eigi öflugra félagslíf en síðasta vetur. 

Bókin hefst um morgun en það er gott að vera að minnsta kosti búinn með fyrsta kaffibolla dagsins áður en lesturinn hefst. Strax á fyrstu síðu er höfundur kominn á hátt flug um tilvistarlegar spurningar. Það eru tvær hliðar á þessari bók, annars vegar tilfinningar og minningar um fólk sem kom og fór og hins vegar heimspekilegar vangaveltur um lífið og dauðann. 

Textinn í ljóðum Jóns Kalmans er gullfallegur og smæstu hlutir, eins og að fara út með hundinn, verða hárómantískir í hans meðförum: 

Og einhver segir, nei, 
en fallegur hundur, og þú segir, 
já, hann horfir á mig þannig að ég þarf ekki lengur
á himninum að halda

Þetta gengur hins vegar ekki alltaf upp og myndmálið á til að vera helst til fyrirsjáanlegt. Í ljóðinu Um gagnsemi guða stillir ljóðmælandi upp mynd af hreinsunarbíl borgarinnar sem skilur eftir sig skínandi götu á móti honum sjálfum sem er uppi á þriðju hæð með sín óhreinindi. Síðar í bókinni má lesa hina ódauðlegu línu: 

Manneskjan er eins og klósett
sturtar niður því sem hún vill ekki kannast við

Þegar vel tekst til ná þessar stóru tilfinningar sterkt til manns. Í ljóðinu Lífið, sjálft lífið rifjar skáldið upp ungæðislega ástarsorg þegar það rekst á konuna sem kom ekki, áratugum fyrr:

Svarthol er það þegar þú kemur ekki

þegar þú ákveður
að lifa án mín. 

Minningin um þessar sterku tilfinningar skildi eftir sig ör. Það er helst á þessu sviði tengsla við aðrar manneskjur og persónulegrar þróunar sem ljóðin náðu að fanga mig. Þegar kom að vangaveltum um lífið og dauðann voru niðurstöður almennar og þar af leiðandi erfitt að tengja við þær. Í ljóðinu Og dauðinn breytir þér í stjörnu, í ljós, skrifar Jón Kalman um tilgang lífsins. 

Og sumum spurningum
aldrei hægt að svara, ég nefni guð, 
ástina, og svo þetta, tilgang lífsins. 

Ljóðin eru annaðhvort þrungin sterkum tilfinningum eða fjarlægum vangaveltum um lífið og dauðann. Jafnvel iðnaðarmenn að tengja ný klósett og reikningar fyrir internetið verða að háleitum tilvistarlegum spurningum. Það er gott að láta rífa sig aðeins upp úr hversdeginum og velta fyrir sér stóru hlutunum. Eins og ljóðmælandi segir sjálfur þá „hefur svo margt verið sagt”. Háfleygar vangaveltur um að lifa lífinu lifandi ná ekki alltaf að lenda þegar ljóðmælandi segir okkur frá niðurstöðum sínum en gefur okkur ekki hlutdeild í samhenginu sem leiddi okkur að þeim. Ljóðin í bókinni eru kraftmikil þó sum þeirra séu vindhögg. En þegar vel tekst til nær skáldið beint inn að kviku. Það er heillandi að fá innsýn í hugarheim annarra, upplifa með þeim gleði og sorgir og sjá heiminn með þeirra augum. Ég vildi bara óska að hann leyfði mér að draga mínar eigin ályktanir um stóru spurningarnar í staðinn fyrir að útlista eigin niðurstöður.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Úr takti við tímann

Bókmenntir

Satt og logið