Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Segir sannanir fyrir innrásaráformum Rússa

epa09614183 NATO Secretary General Jens Stoltenberg (C-L) and US Secretary of State Antony Blinken (C-R) converse during a meeting of the North Atlantic Council at the level of foreign affiars ministers with Georgia and Ukraine within the framework of the North Atlantic Treaty Organization (NATO) Foreign Ministers meeting in Riga, Latvia, 01 December 2021. From 30 November to 01 December 2021, Latvia is hosting a NATO Foreign Ministers meeting for the first time. To address current security challenges, NATO Allies are exchanging views on cooperation with partner countries and the European Union, and also begin their discussions on a new strategic concept for the Alliance.  EPA-EFE/TOMS KALNINS
Jens Stoltenberg og Antony Blinken ræðast við á ráðherrafundinum í Riga. Mynd: EPA-EFE
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að fyrir liggi sannanir um að Rússar kunni að vera að undirbúa innrás í Úkraínu. Hann varar stjórnvöld í Moskvu við alvarlegum afleiðingum þess, ef af verður.

Blinken greindi frá þessu í dag, eftir að tveggja daga utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsríkja lauk í Riga í Lettlandi. Hann sagði að Bandaríkjastjórn hefði alvarlegar áhyggjur af ástandinu, hvort sem til kæmi að veikja stöðu Úkraínu innan frá eða ráðast á landið með herafli.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði þegar hann greindi fréttamönnum frá niðurstöðum ráðherrafundarins, að bandalagsþjóðirnar þyrftu að vera við öllu búnar, en forðast að kynda undir ósætti. Fundarmenn hefðu sagt skýrt og skorinort að ef til hernaðaraðgerða kæmi af hálfu Rússa yrðu þær dýru verði keyptar og hefðu alvarlegar pólitískar og efnahagslegar afleiðingar fyrir þá.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, varaði Úkraínumenn við því í dag á fundi með fréttamönnum í Moskvu að halda áfram að safna saman herliði í héruðum þar sem aðskilnaðarsinnar berjast um yfirráð við stjórnarherinn. Þeir hefðu rofið friðarsamkomulag sem náðist árið 2015 í Minsk fyrir tilstuðlan Frakka og Þjóðverja. Það ætlaði hann að ræða á ráðstefnu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í Stokkhólmi á morgun.

Á fundinum í Moskvu voru Úkraínumenn sakaðir um að hafa dregið 125 þúsund manna herlið að landamærunum, um það bil helming alls heraflans.