Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Óttast að raunverulegur nauðgari finnist ekki

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bandaríski rithöfundurinn Alice Sebold hefur beðist afsökunar á þætti sínum í því að maður var ranglega ákærður og dæmdur til fangavistar fyrir að hafa nauðgað henni árið 1981. Þá var Sebold átján ára. Hún óttast að sá sem framdi ódæðið finnist ekki og hafi mögulega komist upp með fleiri brot.

Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins. Sebold er höfundur skáldsögunnar Svo fögur bein og minningabókarinnar Heppin þar sem hún greinir frá þeirri hræðilegu lífsreynslu að vera nauðgað.

Þar segir hún einnig frá því að hún hafi nokkrum mánuðum eftir árásina tilkynnt lögreglu að hún hafi séð mann á götu úti sem hún taldi vera ofbeldismanninn.

Anthony Broadwater var handtekinn, dæmdur og afplánaði sextán ár af fangelsisdómi sínum en Sebold benti á annan mann við sakbendingu. Broadwater kveðst vera feginn afsökunarbeiðni hennar. 

Nafn hans var afmáð af listum yfir kynferðisglæpamenn 22. nóvember síðastliðinn eftir að ný rannsókn leiddi í ljós að hann var dæmdur á grunni ónægra sannana.

Sebold kveðst sorgmædd yfir þeim árum sem Broadwater var sviptur og segist hafa undanfarna daga reynt að átta sig á hvernig þetta gat allt átt sér stað.

Ekki síst glími hún við þá staðreynd að sennilega komi aldrei í ljós hver raunverulega nauðgaði henni. Sá maður kunni að hafa brotið gegn gegn fleiri konum og sitji ekki í fangelsi líkt og Broadwater gerði.