Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mislagðar hendur í fyrsta embættisverkinu

01.12.2021 - 13:44
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Birgir Ármannsson fór heldur brösuglega af stað sem forseti Alþingis eftir að hafa verið kjörinn í embættið með 48 atkvæðum. Hann hóf störf með því að lesa upp hverjir ættu sæti í þingnefndum og hverjir yrðu formenn þeirra en svo var komið að stóru stundinni; að draga um sætaskipan þingmanna. Sem gekk heldur brösuglega.

Fyrst var dregið um sæti formanna stjórnmálaflokka sem ekki eru ráðherrar. Sá dráttur gekk áfallalaust fyrir sig. 

En svo var komið að því að draga um sæti þingflokksformanna. Þegar þeir voru allir komnir með sitt númer áttaði Birgir sig á því að hann hafði dregið kúlur úr röngum kassa. Og því þurfti að draga aftur.

Þegar búið var að leiðrétta þetta var komið að því að draga út sætaröðun hjá þingmönnum. En þegar sjö þingmenn voru komnir með sitt sæti áttaði forseti Alþingis sig á því að ekki væri allt með felldu.

Til að mynda fékk Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sama sætisnúmer og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.

Hann ákvað því að gera fimm mínútna hlé á þingfundinum til að greiða úr flækjunni.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV