Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Flutti nafngreind frægðarmenni á fund Epsteins

epa09611091 A man with a sign with pictures of Ghislaine Maxwell and Jeffrey Epstein stands outside an US Federal District court house on the first day of Maxwell's sex trafficking trial in New York, New York, USA, 29 November 2021. Maxwell is accused of helping Jeffrey Epstein, who committed suicide while in custody in 2019,  foster sexual relationships with underage girls, who were also allegedly paid by Maxwell.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Einkaflugmaður bandaríska barnaníðingsins Jeffreys Epstein segist hafa flogið með frægðarmenni sem heimsóttu hann um víða veröld. Þetta kom fram í vitnisburði hans í réttarhöldunum sem standa nú yfir gegn Ghislaine Maxwell í New York en hún er sökuð um að hafa aðstoðað Epstein við glæpi hans.

Flugmaðurinn Larry Visoski sem var fyrsta vitnið í málinu kveðst minnast þess að hafa flogið með Andrés Bretaprins, Bandaríkjaforsetana fyrrverandi Bill Clinton og Donald Trump og leikarann Kevin Spacey. BBC fjallar um málið.

Hann segir að Maxwell hafi verið hægri hönd Epsteins, en að það hafi verið hann sem öllu réði. Maxwell hefur setið í fangelsi frá því hún var handtekin á síðasta ári og heldur statt og stöðugt fram sakleysi sínu.

Hún gæti átt yfir höfði sér allt að áttatíu ára fangelsi verði hún fundin sek en fullyrðir að henni sé teflt fram sem blóraböggli í máli Epsteins. Hann dó í fangelsi árið 2019 áður en réttarhöld hófust yfir honum.

Lolita Express

Saksóknarar segja að Maxwell hafi tælt stúlkur undir lögaldri, allt niður í fjórtán ára að aldri, til að hitta Epstein og að hún sjálf hafi um tíma tekið þátt í brotunum. 

Þotan gekk undir heitinu Lolita Express með vísan í skáldsöguna Lolita eftir Vladimir Nabokov. Þar segir af Humbert Humbert sem girnist hina barnungu Lolitu sem bókin heitir eftir.

VIsoski var flugmaður Epsteins um 25 ára skeið, segir að hann hafi ekki orðið var við kynferðisathafnir um borð í þotunni enda hafi dyrnar milli flugstjórnarklefans og farþegarýmisins alltaf verið lokaðar.

Sömuleiðis kveðst hann muna vel eftir Virginiu Roberts Giuffre sem sakar Andrés Bretaprins um að hafa brotið gegn sér fyrir tuttugu árum. Andrés sem nú er 61 árs hefur ávallt neitað ásökunum. Hann hefur ekki verið ákærður vegna málsins. 

Segir Maxwell hafa tekið þátt í brotunum

Fjögur fórnarlamba þeirra Maxwells munu bera vitni. Sú fyrsta sem kom fyrir réttinn var ekki nafngreind en kölluð Jane. Hún kveðst hafa verið fjórtán ára þegar brot Epstein gegn henni hófust og að Maxwell hafi oft verið viðstödd og iðulega tekið þátt. 

Jane greindi í smáatriðum frá hvernig Maxwell tældi hana til fylgilags við sig í Michigan í Bandaríkjunum. Í upphafi hafi móðir hennar farið með henni í heimboð til Maxwell og Epsteins en síðar hafi hún farið þangað ein. 

Eftir að brotin gegn henni hófust segist hún hafa fundið til mikillar sektarkenndar. Því hafi hún ekki sagt nokkrum frá því sem átti sér stað en brotin stóðu um árabil.