Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fannst heil á húfi eftir sjö tíma í frostinu

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Lögreglan á Akureyri fann konu á áttræðisaldrei heila á húfi laust fyrir klukkan sjö í morgun eftir um fimm klukkustunda leit. Þetta segir í tilkynningu frá lögreglu.

Fór að heiman um miðnætti

Tilkynning barst lögreglu klukkan tvö í nótt um að konan, sem er alzheimer-sjúklingur, hafi farið að heiman um miðnætti og ekki skilað sér heim aftur. Vegna sjúkdómsins þótti ólíklegt að hún myndi rata heim aftur.

Björgunarsveitir voru tafarlaust ræstar út til aðstoðar og aðgerðastjórn virkjuð. Leitað var út frá heimili konunnar. Fjöldi björgunarsveitar- og lögreglufólks tók þátt í leitinni með drónum og leitarhundi.

Ákjósanlegar aðstæður

„Þó að kalt hafi verið í veðri þá voru aðstæður til leitar ákjósanlegar og gátu leitarmenn m.a. fylgt líklegum sporum í snjónum frá heimili viðkomandi.  Þrátt fyrir að hafa misst af þeim á nokkrum stöðum var það til þess að konan fannst heil á húfi laust fyrir kl. 07:00, þá enn á gangi og búin að ganga rúmlega 3 kílómetra frá heimili sínu,“ segir í tilkynningu. Konan var flutt á sjúkrahús til aðhlynningar.

Þórgnýr Einar Albertsson