Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Arnar Eggert heiðraður á degi íslenskrar tónlistar

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV

Arnar Eggert heiðraður á degi íslenskrar tónlistar

01.12.2021 - 15:13

Höfundar

Heiðursverðlaun á degi íslenskrar tónlistar hlýtur Arnar Eggert Thoroddsen tónlistarfræðingur, blaðamaður og gagnrýnandi. Fleiri viðurkenningar voru veittar í tilefni dagsins.

Dagur íslenskrar tónlistar var haldinn hátíðlegur víða um land með ýmsum hætti. Í Iðnó við Reykjavíkurtjörn var haldin stutt hátíðarsamkoma af þessu tilefni þar sem veittar voru viðurkenningar tileinkaðar deginum og heiðursverðlaun dagsins, kennd við Lítinn fugl. 

Í ár féllu heiðursverðlaunin í skaut Arnars Eggerts Thoroddsen. Arnar Eggert er doktor í tónlistarfræðum frá Háskólanum í Edinborg og starfar nú meðal annars sem aðjúnkt við Háskóla Íslands þar sem hann er umsjónarmaður grunnnáms í fjölmiðlafræði.

Í tilkynningu, þar sem honum er þakkað af heilum hug fyrir óeigingjarnt starf í þágu íslenskrar tónlistar, vandaða umfjöllun og dagskrárgerð íslenskri tónlist til heilla, segir að Arnar hafi lifað og hrærst í heimi íslenskrar tónlistar frá unga aldri en eftir að hann kom fram í hljómsveitinni Maunum í Músíktilraunum hafi hann einkum lagt rækt við við hlustun og tónleikasókn og viðað að sér þekkingu á heimi tónlistarinnar.

Arnar Eggert hefur starfað sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu um langt skeið og gagnrýnt íslenska tónlist á Rás 2. Eftir hann liggja einnig bækur um íslenska tónlist, svo sem lífshlaupssögu Einars Bárðarsonar, Öll trixin í bókinni, bók um 100 bestu plötur Íslandssögunnar (ásamt Jónatani Garðarssyni, sem hlaut heiðursverðlaunin 2020) og greinasafnið Tónlist ... er tónlist. Arnar hefur þá í gegnum tíðina setið í fjölmörgum dómnefndum, til að mynda í tengslum við Músíktilraunir, Kraumsverðlaunin, Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs og Íslensku tónlistarverðlaunin. 

Heiðursverðlaun á degi íslenskrar tónlistar hlýtur Arnar Eggert Thoroddsen tónlistarfræðingur, blaðamaður og gagnrýnandi.
 Mynd: DÍT

Nýsköpunarverðlaun á degi íslenskrar tónlistar hlýtur Unnur Sara Eldjárn. Tónlistarkonan Unnur Sara hefur komið víða við þrátt fyrir ungan aldur. Hún hefur gefið út tvær breiðskífur, haldið fjölmarga tónleika, starfað við tónmenntakennslu og nú upp á síðkastið staðið fyrir kennslu og deilt þekkingu sinni í markaðssetningu tónlistar á streymisveitum eins og Spotify.

Útflutningsverðlaun hlýtur Record in Iceland fyrir kynningarátak sem felst í því að hvetja tónlistarfólk um allan heim til hljóðritunar hér á Íslandi. Átakið er á vegum ÚTÓN (Útflutningsstofu íslenskrar tónlistar) vegna endurgreiðslu hljóðritunarkostnaðar sem fellur til á Íslandi. 

Síðustu ár hafa verkefni sem þykja sýna íslenskri tónlist sérstaka atfylgi fengið viðurkenningu á deginum. Viðurkenningin heitir Glugginn og í ár er handhafinn tónleikastaðurinn Græni hatturinn á Akureyri.

Að lokum voru hvatningarverðlaun afhent og féllu þau í skaut verkefnisins Stelpur rokka! Stelpur rokka! eru rokkbúðir fyrir ungar stelpur sem settar voru á laggirnar árið 2012 í því skyni að leiðrétta kynjahalla í íslensku tónlistarlífi.