Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Woods (næstum) hættur í atvinnugolfi

Mynd með færslu
 Mynd:

Woods (næstum) hættur í atvinnugolfi

30.11.2021 - 06:28
Tiger Woods, einn þekktasti og snjallasti golfleikari allra tíma, útilokar að hann eigi eftir að keppa framar sem atvinnumaður á stórmótum og bítast þar um sigur og stöðu á heimslistanum við bestu kylfinga heims.

Woods greinir frá þessu í viðtali við bandaríska golftímaritið Golf Digest. Hann segir meiðslin sem hann hlaut í bílslysi í febrúar síðastliðnum hafa verið svo alvarleg og eftirköstin slík að hann sjái fyrir sér að geta í mesta lagi spilað í einu og einu boðsmóti sem hann muni velja af kostgæfni og haga þjálfun sinni í samræmi við það. Þetta sé raunhæft markmið, en meira geti hann ekki gert.

„Þetta er óskemmtilegur veruleiki, en þetta er minn veruleiki. Og ég skil það, og ég sætti mig við það,“ segir Woods.

Brotnaði illa á báðum fótum

Hann fótbrotnaði á báðum fótum þegar hann missti stjórn á bíl sínum 23. febrúar. Hlaut hann opið beinbrot á hægri fæti og braut þar hvort tveggja sköflung og dálk. Að hans sögn mátti minnstu muna að hann missti fótinn fyrir neðan hné. Endurhæfingarferlið hefur að hans sögn gengið upp og ofan, en meira ofan en upp.

Ofan á fótbrotið bætast svo krónísk bakvandamál kappans, sem hefur undirgengist fimm skurðaðgerðir á baki. Bakverkirnir leiddu á sínum tíma til þess að hann varð háður sterkum verkjalyfjum, sem komu honum í margvíslegan vanda á síðustu árum.

Lögregla telur að hann hafi ekið á nær tvöföldum hámarkshraða þegar hann missti stjórn á bílnum, en sjálfur man Woods ekkert eftir slysinu. Lögregla rannsakaði tildrög þess en sú rannsókn var að lokum látin niður falla þar sem engin vitni voru að atvikinu. 

Tengdar fréttir

Golf

Tiger á nánast tvöföldum hámarkshraða þegar slysið varð

Golf

Tiger kominn heim og þakkar stuðninginn

Golf

Snýr Tiger Woods aftur á golfvöllinn?

Golf

Segja Tiger Woods heppinn að hafa komist lífs af