Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vildi nýtt tæki eftir að Netflix-merkið festist inni

30.11.2021 - 16:31
epa05090581 (FILE) A file picture dated 20 August 2015 of an exterior view on the Netflix Corporate Headquarters in Los Gatos, California, USA.  Video streamer Netflix on 06 January 2016 went live around the world, adding 130 new countries to its service
 Mynd: EPA EPA - EPA FILE EPA
Kærunefnd vöru-og þjónustukaupa hefur hafnað kröfu eiganda sjónvarps sem vildi fá nýtt tæki eftir að skjárinn varð skærgrænn og vörumerki tveggja efnisveitna festust inni. Verslunin sem seldi tækið taldi að flatskjárinn væri ekki gallaður heldur hefði hann verið rangt notaður.

Maðurinn keypti sér LG Olad, 55 tommu flatskjá, fyrir nærri 280 þúsund krónur í janúar 2017.  Tæpum þremur árum seinna tilkynnti hann um bilun í tækinu; skjárinn var orðin skærgrænn og vörumerki frá tveimur efnisveitum höfðu fests á skjánum, annað þeirra var Netflix.

Verslunin sem seldi manninum sjónvarpið hafnaði því að tækið hefði verið gallað þegar það var keypt. Það hefði einfaldlega verið rangt notað. 

Maðurinn vísaði því á bug og sagðist hafa fylgt leiðbeiningum en samt hefði skjárinn bilað. Og þegar hann hefði farið með það í viðgerð hefði viðgerðarkostnaðurinn verið hærri en kaupverðið.  

Verslunin reyndi að koma til móts við manninn með því að bjóða honum að kaupa sambærilegt sjónvarp á lægra verði. Því boði var hafnað. 

Maðurinn benti á að framleiðandinn hefði viðurkennt galla í þessum sjónvarpstækjum og að mörgum slíkum hefði verið skipt út.

Verslunin taldi hins vegar að vörumerkin frá streymisveitunum hefði fests inni þar sem kyrrmynd hefði verið lengi á skjánum.  Og sérstaklega væri varað við þessu í leiðarvísi og hvernig mætti koma í veg fyrir það.

Kærunefndin segir í úrskurði sínum að krafan um nýtt sjónvarp byggi á því að gamla tækið hafi verið gallað þegar það var keypt. Og því beri að miða fyrningarfrest við þann dag.  Þar sem ummerki bilunarinnar hafi komið fram nærri þremur árum seinna verði að telja kröfuna fyrnda.

Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem flatskjár þessara sömu tegundar kemur til kasta kærunefndarinnar. 

Í sumar komst nefndin að þeirri niðurstöðu að verslun bæri að afhenda viðskiptavini nýtt sjónvarpstæki eftir að það gamla bilaði þegar gulur litur varð að grænum.  Það tæki var 65 tommu og kostaði 524 þúsund.

Þá eins og nú hélt verslunin því fram að tækið hefði verið vitlaust notað. Kærunefndin sagði í niðurstöðu sinni að sjónvarpstæki sem kostaði hálfa milljón ætti að endast lengur en tæp þrjú ár. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV