Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vara Rússa við að ráðast á Úkraínu

epa09612743 U.S. Secretary of State Antony Blinken arrives for a NATO Foreign Ministers meeting in Riga, Latvia, 30 November 2021. From 30 November to 01 December 2021, Latvia is hosting a NATO Foreign Ministers meeting for the first time. To address current security challenges, NATO Allies are exchanging views on cooperation with partner countries and the European Union, and also begin their discussions on a new strategic concept for the Alliance.  EPA-EFE/TOMS KALNINS
 Mynd: EPA-EFE
Bandarísk stjórnvöld segja að það eigi eftir að hafa alvarlegar afleiðingar ef rússneskt herlið ræðst inn í Úkraínu. Hernaðarumsvif Rússa við landamærin hafa stöðugt vaxið að undanförnu.

Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsríkja eru komnir til fundar í Riga í Lettlandi þar sem eitt aðalumræðuefnið verður hættan á innrás Rússa í Úkraínu. Stjórnvöld í Kænugarði fullyrða að allt að 115 þúsund manna herlið sé komið að landamærunum.

Evrópusambandið, Atlantshafsbandalagið og Bandaríkin hafa lýst yfir alvarlegum áhyggjum af hernaðarumsvifum Rússa við landamærin. Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði á fréttamannafundi með hinum lettneska starfsbróður sínum í dag, áður en ráðherrafundurinn hófst, að Bandaríkjamenn og Lettar deildu áhyggjum af stöðunni á landamærunum og hvers kyns yfirgangur af hálfu Rússa ætti eftir að hafa alvarlegar afleiðingar.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði í Moskvu í dag að heræfingar og aðrar aðgerðir vestrænna ríkja og Úkraínu á hernaðarsviðinu ógnuðu öryggi Rússa. Hann varaði við afleiðingum þess að ríkin stigju yfir rauðu línuna, án þess að skilgreina nánar hvar hún liggur.