Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Telur bóluefni síður virka gegn omíkron

Moderna COVID-19 vaccine arrives at local pharmacies in Canberra, Australian Capital Territory
 Mynd: EFE - EPA
Bóluefni gegn kórónuveirunni munu ekki virka jafnvel gegn omíkron-afbrigðinu og þau gerðu gegn delta-afbrigðinu og trúlega þarf að breyta öllum bóluefnum sem þróuð hafa verið gegn veirunni. Þetta er mat Stéphane Bancel, framkvæmdastjóra Moderna. Financial Times greinir frá.

„Það er algjörlega útilokað að virknin sé jafnmikil og var raunin með delta-afbrigðið. Ég veit ekki hversu mikill munurinn er af því við þurfum að bíða eftir gögnin en þeir vísindamenn sem ég hef rætt við segja enga ástæðu til bjartsýni,“ sagði Bancel.

Áhyggjur á heimsvísu

Omíkron-afbrigðið hefur vakið umtalsverðar áhyggjur á heimsvísu. Smituðum fer fjölgandi í Suður-Afríku, þar sem afbrigðið greindist fyrst, og fjöldi ríkja hefur hert takmarkanir á landamærum sínum.

Það hefur nú greinst víðast hvar í Evrópu, í Kanada, Kína, Ástralíu og svo í sunnanverðri Afríku. Fjármálamarkaðir víðs vegar um heiminn tóku dýfu fyrir helgi þegar afbrigðið uppgötvaðist og svo aftur í morgun þegar Bancel tjáði sig um virkni bóluefnis gegn omíkron-afbrigðinu.

Stökkbreytingarnar erfiðar

Bancel sagði sömuleiðis við CNBC að það gætu einhverjir mánuðir liðið þangað til bóluefni sem virkar betur gegn omíkron-afbrigðinu er tilbúið.

Mikill fjöldi stökkbreytinga á broddprótíni veirunnar geri það að verkum að trúlega þurfi að breyta þeim bóluefnum sem hafa verið þróuð gegn kórónuveirunni.

Þórgnýr Einar Albertsson