Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Svæðisborgin“ Akureyri í nýjum stjórnarsáttmála

default
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að mótuð verði stefna um að skilgreina frekar svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem stærsta þéttbýliskjarnans á landsbyggðinni. Formaður Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra segir þetta viðurkenningu stjórnvalda á að byggja upp annað borgarsvæði á Íslandi.

Í skýrslu starfshóps sem skipaður var af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, til að skilgreina svæðisbundið hlutverk Akureyrar, var meðal annars lagt til að Akureyri verði í byggðastefnu stjórnvalda flokkuð sem svæðisborg með skilgreinda ábyrgð og skyldur.

Svæðisbundið hlutverk Akureyrar verði skilgreint

Þessar tillögur eru nú teknar upp í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. "Mótuð verður stefna þar sem svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem stærsta þéttbýliskjarnans á landsbyggðinni er skilgreint og stuðlar að uppbyggingu sem geti boðið upp á fjölbreytileika í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum."

Mikilvægt fyrir verkefnið

Hilda Jana Gísladóttir, stjórnarformaður SSNE, segir ánægjulegt að sjá þetta sett fram með svo skýrum hætti í stjórnarsáttmálanum. „Mér finnst þetta töluverð tímamót. Og þetta er mikilvæg varða á þessari leið, að ekki bara sveitarfélagið Akureyrarbær, heldur sveitarfélögin á Norðurlandi eystra og síðan ríkisvaldið og í stjórnarsáttmálanum kemur fram að við erum öll komin á sömu blaðsíðu. Þannig að ég ætla að vera nokkuð bjartsýn um að það geti orðið heilmikill árangur í þessu.“

Nýr tónn í umræðunni um byggðamál

Hún telur sögulegt að svæðisbundið hlutverk sveitarfélags á Íslandi sé skrifað inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar. Verið sé að slá nýjan tón í umræðunni um byggðamál og skora á hólm þá stefnu að aðeins skuli vera ein borg eða borgarsvæði og svo landsbyggð með minni byggðakjörnum. „Og nú erum við kannski bara stödd þar að við erum sammála um að byggja upp aðra borg á Íslandi. Og einhvers staðar hefði það nú þótt fréttnæmt.“