Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sex höfundar, sex persónur, sex sjónarhorn

Mynd: MM / MM

Sex höfundar, sex persónur, sex sjónarhorn

30.11.2021 - 14:14

Höfundar

Olía er fyrsta skáldsaga höfundahópsins Svikaskálda. Bókin er nokkuð óvenjuleg tilraun sem rífur í margar tilfinningar og hugmyndir okkar um samtímann, segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Ein skáldsaga skrifuð af sex mismunandi höfundum er nokkuð óvenjuleg tilraun, vissulega þekkist það að skáldsögur séu eftir fleiri en einn höfund, en að þeir, eða þær í þessu tilfelli, séu sex talsins er býsna ríkulegt. Við lesturinn kemur í ljós að samstarfið er innbyggt inn í form sögunnar, hver kafli er ritaður frá sjónarhorni einnar persónu eins og nokkuð vinsælt er orðið, William Faulkner biður að heilsa, þannig að þær stöllur í Svikaskáldum skrifa hver fyrir eina þeirra. Sögur persónanna, sem allar eru konur, tengjast síðan með einum eða öðrum hætti og úr verður heildstætt verk, skáldsaga, sem heldur lesandanum við efnið með nokkuð snjöllum hætti, því þessar tengingar vekja forvitni og og áhuga á að átta sig sig þeim. Þannig stóð ég mig að því að fletta stundum fram og aftur til að ganga úr skugga um sumar af þessum tengingum, því þær eru misaugljósar, en alltaf fyrir hendi. 

Sögunum er líka haldið saman með öðrum tækjum skáldskaparins, titillinn, Olía, er endurtekinn að módernískum hætti á ýmsum merkingarsviðum, allt frá olíukenndum taumum í fiskabúri, olíulitum málara, pepperóníolíu á vörum vonbiðils til olíunnar í iðrum jarðar sem við brennum alla daga í miklu meira magni en hollt er lífinu á þessari plánetu okkar. Enda eru loftslagsbreytingar eitt af þemum sögunnar, það er komið að þeim frá ýmsum sjónarhornum í orðum og gerðum kvennanna sem segja frá í fyrstu persónu. Oftast nær tekst að halda predikunarstílnum frá þessu þótt segja megi að á því örli annað veifið, en þetta er samt allt hluti af orðræðu samtímans um þessi mál og því ágætlega trúverðugt að einstakar persónur tjái sig um þær með þeim hætti; dæmi um það gæti verið framsöguræða eldri dóttur Lindu sem ætlar í loftslagsverkfall á föstudegi. 

Annað ríkt þema er síðan feðraveldið, en gagnrýnin á það er nokkuð írónísk, því þótt sumar persónur hafi skoðanir á því, felst þessi gagnrýni mikið í sjálfsgagnrýni kvennanna sjálfra, þær dæma sig stundum hart fyrir viðbrögð sín og eiga það einnig sameiginlegt, margar, að eiga í erfiðu sambandi við mæður sínar. Það er eins og mæðraveldi uppeldisins sé eins konar framlenging á feðraveldinu, nánast framkvæmdastjórn þess. Sem dæmi má nefna Gerði í fyrstu sögunni sem nær engu sambandi við dætur sínar, aðra þeirra að minnsta kosti, á meðan hin, sem fær sinn eiginn kafla, Mæja, uppgötvar hina fræðilegu gagnrýni á feðraveldið og er síðan í einmanaleika sínum forfærð af eldri, vingjarnlegum og giftum dúdda sem í fyrstu þykist ekkert vera að reyna, en lætur til skarar skríða þegar færið gefst.  

Þriðja þemað, tengt hinum fyrrnefndu, er síðan börn, barneignir og samband mæðra og dætra; kvöðin sem konur finna til að eiga börn og það er spurt beint og óbeint hver tilgangur barneigna sé á okkar síðustu og verstu tímum, hver framtíð þeirra verði og lýst er átökum mæðra og dætra og líka systra, sem oft eru flókin og átakanleg í sögunni. 

Kannski er ekkert skrýtið að sex meginpersónur fjölhöfunda sögu séu ólíkar og beri hver sín einkenni, en það er samt athyglisverður rauður þráður í þeirra innri átökum, þetta eru, sýnist mér, allt konur sem eru að berjast við spurninguna um hverjar þær eru, meira að segja unga konan, Snæsól er að því, þrátt fyrir að hún í sakleysi sínu, ef svo mætti orða, sé nánast ómeðvituð um það. Hún situr um bisnesskonuna Lindu P sem er auðvitað ekki fegurðardrottningin fræga, heldur fjárfestir sem er alveg til í að græða á olíulindum; kaldrifjuð kona sem veit að heimurinn flýtur að feigðarósi, en ætlar að tryggja sig og sína með gróðanum, hafi ég skilið þetta rétt. Hún hefur líka skilið eftir sig sviðna jörð í tengslum við móður sína, eða var hún fórnarlamb aðlöðunar eiginmanns móðurinnar? Hún er ekki á því, en sagan af henni bendir þó frekar til þess. 

Harmrænasta manneskjan í sögunni er líkast til Rannveig, eiginkona dúddans áðurnefnda, held ég, en persónuleiki hennar er í upplausn og innan í frásögninni eru einhvers konar óraljóð sem tjá þessa sundrun, samtímis vinnur hún, að því er virðist, að óhugnanlegu verkefni sem ekki er orðað beinlínis, en er samt nokkuð ljóst í lokin, þótt það sé lesandans að túlka hvers konar farmi hún er að kasta út í Ölfusá í lok kaflans.  

Eins sérstæðasta persónan er Kristín, listmálari, olíumálari nánar tiltekið, systir Gerðar sem fyrsta sagan segir frá. Hún fluttist á æskustöðvarnar í sveitinni og dvaldi þar í óþökk systur sinnar, en er á sögutíma á leið í bæinn með óræð áform um að kveikja í jökli, ein af táknmyndunum um loftslagsvána, olíubrunann sem farinn er að gnæfa yfir hugum okkar allra. Þetta er auðvitað ekki sagt svona, en vekur þessi hugrenningatengsl. Draumar hennar og skrif um tré og rótarkerfi trjáa sem hrifu ungu konuna Snæsól er síðan staðfesting á þversögnunum í tilveru okkar sem bókin hverfist að miklu leyti um. Þessar þversagnir eru að vissu leyti uppspretta upplausnarinnar í lífi þessara kvenna, upplausnar sem á rætur að rekja til samskipta- og hugsunarleysis, vanvirðu okkar við náttúruna og einhver raunveruleg gildi í lífinu, persónurnar gagnrýna, hatast og ólmast, en hugmyndir þeirra að lausnum sýnast mér alltaf enda í blindgötu, þær finna enga leið fyrir sig aðra en örvæntinguna og hella alltaf olíu á eldinn, þið fyrirgefið orðaleikinn. En sagan Olía rífur í margar tilfinningar og hugmyndir um samtíma okkar og kannski einmitt vegna þess að í henni koma saman sex höfundar, sex persónur, sex sjónarhorn sem opinbera máttleysi okkar allra í samtímanum. Tengingarnar á milli persónanna sýna líka að vandinn er sennilegast fólginn í sambandsleysi milli manneskja og firringu þeirra frá sér sjálfum. Það er ágætis áminning, en hvað svo?  

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Svikull ljóðalestur á alþjóðadegi ljóðsins

Bókmenntir

Óhræddar við að verða fyrir áhrifum

Bókmenntir

Leggja í ránsferð um ljóðlendur

Bókmenntir

Hvað er svikaskáld?