Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óttast að innrás Rússa sé yfirvofandi

30.11.2021 - 01:55
epa09583135 Ukraine's Minister of Foreign Affairs Dmytro Kuleba arrives at an eastern partnership meeting on the sidelines of the European Foreign Ministers Councils in Brussels, Belgium,15 November 2021. EU Foreign Ministers are expected to annouce new sanctions on Belarus over migrant crisis at the Polish border.  EPA-EFE/OLIVIER HOSLET
Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu Mynd: epa
Úkraínsk stjórnvöld fullyrða að Rússar séu með allt að 115.000 manna herafla nærri landamærum Úkraínu og kalla eftir skjótum aðgerðum Vesturveldanna til að „fæla“ Kremlarstjórnina frá innrás, sem þeir séu færir um að ráðast í „á augabragði.“

Evrópusambandið, Nató og Bandaríkin hafa lýst áhyggjum af vaxandi hernaðarumsvifum Rússa við úkraínsku landamærin síðustu vikurnar og áhyggjur Úkraínumanna eru enn þyngri.

„Mjög alvarlegt“

„Það er betra að grípa til aðgerða núna, ekki seinna,“ til að „fæla Rússa“ frá innrás í Úkraínu sagði utanríkisráðherrann Dmytro Kuleba á fundi með erlendum fréttamönnum í gær. „Það sem við erum að horfa upp á núna er mjög alvarlegt,“ sagði ráðherrann.

„Rússar hafa sent mjög fjölmennt herlið að landamærum Úkraínu. Í versta falli munu Rússar beita valdi til að reyna að breyta landamærum Evrópu, eins og þeir gerðu í Georgíu 2008 og í Úkraínu 2014.“

Innrás gæti hafist „á augabragði“

Fullyrti ráðherrann að rússneski herinn sé með 115.000 manna lið meðfram landamærunum að Úkraínu, á Krímskaganum sem Rússar innlimuðu 2014, og í tveimur héruðum Úkraínu sem eru á valdi aðskilnaðarsinna sem hallir eru undir Rússa.

Skriðdrekar, stórskotalið, flugher og floti - allt þetta er líka til taks, að sögn ráðherrans. „Ef Rússar ákveða að ráðast í hernaðaraðgerðir, þá munu hlutirnir bókstaflega gerast á augabragði,“ sagði Kuleba. 

Sér ekki fyrir sér hernaðaríhlutun Bandaríkjanna

 

John Kirby, talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins, segir hernaðarumsvif Rússa við úkraínsku landamærin áhyggjuefni. Hann hét áframhaldandi stuðningi Bandaríkjanna við Úkraínuher en þó ekki hernaðaraðstoð.

„Við fylgjumst náið með [umsvifum Rússa við Úkraínsku landamærin],“ sagði Kirby,  „en við sjáum ekki fyrir okkur neina hernaðaríhlutun Bandaríkjanna í þessari deilu.“