Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Mikið hraunrennsli eftir að gos hófst á ný á La Palma

30.11.2021 - 00:39
Erlent · Hamfarir · Náttúra · eldgos · La Palma · Spánn · Evrópa
epa09611799 View of Cumbre Vieja volcano expelling lava and ashes in La Palma island, Canary Island, southwestern Spain, 29 November 2021. A new vent appeared early morning 28 November continues activity.  EPA-EFE/Miguel Calero
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Eldgosið í Cumbre Vieja-fjallinu á Kanaríeyjunni La Palma tók sig upp á nýjaleik um helgina af feiknarkrafti. Eftir stutt goshlé opnuðust nokkrar nýjar sprungur í fjallinu norðan- og norðaustanverðu á laugardag og sunnudag og rauðglóandi hraunelfar streyma nú aftur niður hlíðar þess. Um tuttugu jarðskjálftar skóku eyjuna í aðdraganda þessara atburða.

Tíu vikur eru liðnar frá því að gos hófst í fjallinu. Íbúar í nágrenni þess fylgjast áhyggjufullir með nýjustu vendingum, vona hið besta en búa sig undir hið versta. Um 2.700 byggingar hafa þegar horfið undir hraun og ösku að hluta eða öllu leyti og yfir 1.100 hektarar lands eru horfnir undir brunahraun.

Tæplega 80.000 manns eru enn á eyjunni og yfirvöld telja ólíklegt að þeir þurfi að flýja hana í bráð þótt gos sé hafið á ný. Í byrjun síðustu viku fögnuðu eyjarskeggjar því að flugvöllurinn á eyjunni var opnaður, eftir að loksins tókst að hreinsa hann af ösku og vikri.