Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Menn hafa alveg náð að kroppa eitthvað í matinn“

30.11.2021 - 14:15
Mynd með færslu
 Mynd: Dúi Landmark
Í dag er síðasti dagur sem veiða má rjúpu á þessu ári, auk þess sem núverandi reglugerð um rjúpnaveiðar er að renna út. Formaður Skotveiðifélags Íslands segir ágætis hljóð í veiðimönnum þó hafi veiðin almennt verið frekar treg. 

Veiðitímabil rjúpu í vetur var 1. til 30. nóvember og veiða mátti alla daga vikunnar, nema miðvikudaga og fimmtudaga.

Einna best á Vesturlandi og Vestfjörðum

Áki Ármann Jónsson, formaður Skotveiðifélags Íslands, segir ágætt hljóð í veiðimönnum núna þegar síðasti veiðidagurinn er að hefjast. „Menn hafa alveg náð að kroppa eitthvað í matinn, en maður hefur ekki orðið var við neina góða veiði neins staðar.“ Einna best hafi gengið á Vesturlandi og Vestfjörðum, þar sem rjúpnastofninn er sterkastur, en almennt hafi veðrið yfir veiðitímann verið rysjótt, rigning og rok sett strik í reikninginn.

Veiðibann fyrir hádegi hafði ekki mikil áhrif

Rétt áður en rjúpnaveiðin hófst ákvað umhverfisráðherra að aðeins mætti veiða rjúpu eftir hádegi. Áki segir að það hafi ekki haft jafn mikil áhrif og margir óttuðust. „Þetta hefur alveg gengið ágætlega. Það hefur enginn týnst eins og menn voru að óttast ef menn færu að veiða fram í svarta myrkur og ekki að rata í bílinn sinn . Þannig að þetta hefur gengið stóráfallalaust fyrir sig.“

Verður auðveldara að sníða veiðina að stærð stofnsins

Haustið 2019 var gefin út reglugerð um rjúpnaveiðar sem gilti í þrjú ár og því er ljóst að nýjar reglur taka gildi þegar veiðin hefst á næsta ári. Áki telur að með sífellt betri upplýsingum og auknum rannsóknum verði á næstu árum auðveldara, en hingað til, að sníða veiðina að stofnstærð rjúpunnar. „Það er búið að vera að vinna stjórnunar- og verndaráætlun rjúpunnar í eitt og hálft ár og sú vinna verður nær örugglega kláruð núna í vetur. Þá kemur miklu stífari rammi, faglegri og betri, utan um rjúpnaveiðarnar. Og það má jafnvel búast við því þegar er mikið af rjúpu að þá verði mun fleiri veiðidagar leyfðir.“