Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ekki verði hróflað við verkfallsrétti

30.11.2021 - 18:53
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Formaður BSRB varar við að hróflað sé við verkfallsréttinum, en í stjórnarsáttmálanum er fjallað um að styrkja hlutverk ríkissáttasemjara. Formaður BHM segir áhyggjurnar lögmætar en telur að breytingar sem gerðar eru með aðkomu verkalýðshreyfingarinnar geti verið jákvæðar.

Fjallað er um vinnumarkaðsmál í sjö liðum í verkefnakafla stjórnarsáttmálans, þar sem er kallað eftir bættum vinnubrögðum og skilvirkni við gerð kjarasamninga og fleira.

„Hann er auðvitað mjög fáorður en okkur líst hins vegar ekkert illa á hann. Það er til dæmis þarna verið að boða aðgerðir til að útrúma kynbundnum launamun á opinberum vinnumarkaði, sem er mjög jákvætt og við fögnum. Þarna er líka verið að tala um að bæta umgjörð og vinnulag í kringum kjarasamninga sem er mjög mikilvægt. BSRB sendi stjórnvöldum fyrir um áratug beiðni þess efnis að það yrði farið í þessa vinnu, að stuðla að því að kjarasamningur tæki við af kjarasamningi, þannig að við bíðum enn þá eftir þessari bættu umgjörð,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB

Formanni BHM er jákvæður.

„Mér líst ágætlega á það. Þetta er auðvitað ekki mjög ítarlegt, en það sem er þarna það finnst mér lofa góðu og mér finnst nú full ástæða til þess að taka viljann fyrir verkið og taka jákvætt í það sem er verið að leggja til,“ segir Friðrik Jónsson.

Í kaflanum segir að styrkja þurfi hlutverk ríkissáttasemjara til að bæta undirbúning og verklag við kjarasamninga og tryggja að viðræður dragist ekki úr hófi fram, til að mynda með standandi gerðardómi í kjaradeilum sem auki fyrirsjáanleika og réttaröryggi deiluaðila. Forseti ASÍ varaði í gær við að hróflað yrði við helgasta rétti launafólks, og á þar væntanlega við verkfallsréttinn.

„Ég hef séð að kollegar mínir gagnrýna og hafa áhyggjur af stöðu verkfallsréttarins, það er lögmætt. En við skulum þá líka hafa í huga að þegar að beitt hefur verið lögum á verkfallsréttinn, þá er það gagnaðilinn sem skrifar þau lög með engri aðkomu verkalýðshreyfingarinnar, það er skipaður gerðardómur sem við höfum enga aðkomu að, þannig að ef að þetta er formfest með einhverjum betri hætti með okkar aðkomu, þá geti það einmitt verið mjög jákvætt,“ segir formaður BHM

Hann minnir einnig á að sumar stéttir hafi ekki verkfallsrétt, þannig að styrkara hlutverk ríkissáttasemjara gæti verið til bóta. Formaður BSRB bendir á að stéttarfélögin séu fjöldasamtök sem taki ákvörðun um verkfall og þann rétt megi ekki setja í hendur eins eða fárra.

Formaður BSRB segir að ekki verði hróflað við verkfallsréttinum.

„Ég held að það sé fyrst og fremst verið að horfa til þess að bæta skipulag og vinnulag í kringum kjarasamninga og það er ekki vanþörf á, það mætti vel bæta úr ansi mörgu og ég tel að það sé tilefni til þess að fara í þetta samtal. En hins vegar vegna þess að þessi hugmynd að þrengja að verkfallsrétti hefur verið svo ofarlega á baugi, þá er ekki að ástæðulausu að samtök launafólks eru að vekja athygli á því að það verður ekki hróflað við honum,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir.
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV