
Karl Bretaprins var viðstaddur athöfnina sem fulltrúi móður sinnar og breska samveldisins. Á athöfninni var konunglegur ríkisfáni drottningar dreginn niður og fáni Barbados einn hafður við hún þegar Sandra Mason sór embættiseið sem fyrsti lýðræðislega kjörni forseti lýðveldisins Barbados.
Lítil eyja langt úti í hafi
Barbados er eyríki í Karíbahafi, um 440 ferkílómetrar að flatarmáli og íbúar eru þar um 290.000. Spánverjar námu þar land seint á 15. öld og fundu þar fyrir frumbyggja af þjóð Karíba. Portúgalar lögðu eyjuna undir sig á sextándu öld en yfirgáfu hana snemma á þeirri sautjándu. Englendingar gerðu hana svo að sinni á þriðja áratug sautjándu aldar, fluttu þangað þræla í stórum stíl sem látnir voru strita þar á plantekrum þar til þrælahald var bannað 1833.
Sjálfstæði innan samveldisins í 55 ár
1966 gerðist Barbados sjálfstætt ríki innan breska samveldisins, með sjálfstæða aðild að Sameinuðu þjóðunum en Elísabetu II sem þjóðhöfðingja. Það var svo í september 2020 að barbadoska þingið samþykkti að fagna 55 ára sjálfstæði með fullum aðskilnaði við samveldið og stofnun lýðveldis 30. nóvember 2021.
Forsætisráðherrann og leiðtogi stjórnarandstöðunnar lögðu svo fram sameiginlega tillögu um það í október síðastliðnum að ríkisstjórinn Mason skyldi verða fyrsti forseti lýðveldisins og var það samþykkt með öllum greiddum atkvæðum í báðum deildum þingsins.
Þótt Barbados tilheyri ekki lengur breska samveldinu getur það áfram verið í hópi sjálfstæðra ríkja með lausleg tengsl við samveldið, eins og Gvæjana og Trínidad og Tóbagó.