Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Víkingar unnu botnslaginn

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Víkingar unnu botnslaginn

29.11.2021 - 22:14
Sannkallaður botnslagur var spilaður í úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld þegar nýliðar Víkings og HK mættust en hvorugt liðið hafði unnið leik í deildinni fram að þessu. Að endingu voru það Víkingar sem höfðu betur og sóttu sín fyrstu stig á tímabilinu.

Fyrri hálfleikurinn var tiltölulega jafn. Hjörtur Ingi Halldórsson, leikmaður HK, fékk beint rautt spjald um miðbiki fyrri hálfleiksins og það voru Víkingar sem voru yfir í hálfleik, 14-13. Víkingur byrjaði svo seinni hálfleikinn af miklum krafti og komst í 17-14. Þeirri forystu héldu þeir svo út leikinn þó svo HK-ingum tækist nokkrum sinnum að saxa á forskotið. Að lokum varð sigurinn nokkuð öruggur, lokatölur 26-22 fyrir Víking sem lyftir sér þar með upp í 11. sætið á meðan HK-ingar sitja á botni deildarinnar. 

Túnisbúinn Hamza Kablouti sem gekk til liðs við Víkinga frá Aftureldingu nýlega var markahæstur í liðinu með 9 mörk. Einar Bragi Aðalsteinsson skoraði flest mörk HK-inga, alls 6 talsins.