Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Þurfum bara að koma sterkir og sýna hvað við getum“

Mynd: Davidson / Davidson

„Þurfum bara að koma sterkir og sýna hvað við getum“

29.11.2021 - 09:54
Jón Axel Guðmundsson, landsliðsmaður í körfubolta, segist hlakka til að spila fyrir framan rússneska áhorfendur í kvöld þegar Ísland mætir Rússum ytra. Þetta er annar leikur Íslands í undankeppni HM 2023.

Eftir fyrstu umferð riðilsins eru Rússar á toppnum eftir sigur á Ítölum á föstudag. Ísland vann á sama tíma Holland 79-77. Rússland og Ítalía eru bæði töluvert ofar en Ísland og Holland á styrkleikalista FIBA. Íslenska liðið æfði í morgun fyrir leikinn í kvöld í höllinni í St. Pétursborg. Jón Axel segir að leikurinn leggist vel í hann. „Bara ógeðslega vel. Eins og við vissum vel eru Rússarnir mjög góðir og þeir tóku Ítalina full auðveldlega í fjórða leikhluta þannig við þurfum bara að koma sterkir og sýna hvað við getum,“ segir hann

Áhorfendur verða leyfðir á leiknum í kvöld, þó aðeins 30% af hámarksfjölda sem kemst fyrir í höllinni. „Það leggst bara vel í mann, maður vill alltaf hafa áhorfendur og það var full leiðinlegt að spila í Hollandi með enga áhorfendur. Það var eins og maður væri kominn aftur í tímabilið í fyrra þegar það voru engir áhorfendur og það var frekar dauð stemning hvort sem liðið var á að gera vel eða ekki. Þannig það verður bara fjör að spila hérna fyrir framan Rússana í kvöld.“ segir Jón.

Viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan. Leikur Íslands og Rússlands í undankeppni HM karla í körfubolta hefst kl. 17 og verður sýndur beint á RÚV 2 en upphitun í HM stofunni hefst klukkan 16:30.