Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Stofnanir og verkefni á flakki

Mynd með færslu
 Mynd: Viðar Hákon Söruson - RÚV
Fjölmargar stofnanir og verkefni færast milli ráðuneyta við uppstokkun ríkisstjórnarinnar. Heiti ráðuneyta verða óbreytt þangað til þingið hefur lagt blessun sína yfir þau samkvæmt nýrri verkaskiptingu.

Verkaskiptingu milli ráðuneyta má sjá í forsetaúrskurði sem birtist á vef stjórnartíðinda í morgun.

Verkefni forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis eru óbreytt frá því sem áður var. Annars staðar eru töluverðar hræringar. Lilja Alfreðsdóttir, sem verður ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, fær verkefni sem áður tilheyrðu atvinnuvegaráðuneyti og menntamálaráðuneyti. Undir hana munu heyra stofnanir eins og Samkeppniseftirlitið, Ríkisútvarpið, Ferðamálastofa, Neytendastofa, Þjóðleikhúsið og hvers konar safnastarfsemi.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, nú ráðherra vísinda, iðnaðar og nýsköpunar tekur að sér verkefni úr menntamála-, atvinnuvega- og samgönguráðuneytinu. Hún verður meðal annars yfir háskólum, Menntasjóði Námsmanna, Tækniþróunarsjóði og Hugverkastofu. Þá fara fjarskipti á hennar borð úr samgönguráðuneytinu.

Ásmundur Einar Daðason, er mennta- og barnamálaráðherra. Þar undir heyra mál leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla sem og íþrótta- og æskulýðsmál. Hann verður yfir Menntamálastofnun, umboðsmanni barna og Íslenskum getraunum auk þess sem það kemur í hans hlut að reisa nýja þjóðarleikvanga.

Verkefni Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, verða að mestu óbreytt en þjónusta um alþjóðlega vernd færist til hans þótt Útlendingastofnun verði áfram undir dómsmálaráðuneytinu.

Þá fær Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra húsnæðis- og skipulagsmál á sitt borð, þar með taldar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og skipulagsstofnun.

Ráðherra umhverfismála bar áður titilinn umhverfis- og auðlindaráðherra en verður nú umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra. Orkumál og náttúruvernd verða þess vegna í fyrsta sinn á sömu hendi. Guðlaugur Þór Þórðarson gegnir því embætti og verður til að mynda yfir Orkustofnun, Umhverfisstofnun, Veðurstofu Íslands og Minjastofnun Íslands.

Magnús Geir Eyjólfsson