Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Persónuverndarlög brotin í COVID-rannsókn

Hús íslenskrar erfðagreiningar.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Persónuvernd telur að vinnsla persónuupplýsinga Landspítala og Íslenskrar erfðagreiningar í aðdraganda viðbótar við vísindarannsókn á COVID-19 sjúkdóminum hafi ekki samrýmst persónuverndarlögum. Spítalinn og Íslensk erfðagreining sleppa við sektargreiðslu vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi voru og þeirri ógn sem íslensku samfélagi stafaði af farsóttinni.

Þetta kemur fram á vef Persónuverndar.

Í úrskurði Persónuverndar segir að athugun hófst eftir að blóðsýni voru tekin úr sjúklingum sem lágu inni á Landspítalanum í byrjun apríl á síðasta ári.  Blóðsýnin voru send Íslenskri erfðagreiningu sem viðbót við rannsóknina „Faraldsfræði SARS-CoV-2-veirunnar og áhrif erfða og undirliggjandi sjúkdóma á COVID-19-sjúkdóminn sem hún veldur“.

Blóðsýnin voru tekin áður en Vísindasiðanefnd veitti leyfi fyrir viðbótinni.

Persónuvernd segir að ekki sé heimilt að hefja vinnslu persónuupplýsinga í þágu vísindarannsókna  á heilbrigðissviði nema leyfi siðanefndar ligi fyrir.  Í úrskurðinum segir að skýringar Landspítalans og Íslenskrar erfðagreiningar stangist á og með hliðsjón af því sé það mat stofnunarinnar að vinnsla persónuupplýsinga hafi ekki samrýmst persónuverndarlögum. 

Persónuvernd segist engu að síður gera sér grein fyrir þeirri ógn sem stafað hafi af COVID-19 sjúkdóminum í íslensku samfélagi frá upphafi faraldursins og því álagi sem íslensk heilbrigðisyfirvöld hafi verið undir.  Og því verði sektum ekki beitt. 

Mál Landspítala og ÍE er eitt þriggja mála sem Persónuvernd hefur lokið athugun á.  Málin snerta starfsemi sóttvarnalæknis, Landspítala og Íslenskrar erfðagreiningar og samspil þeirra á tímum heimsfaraldurs.

Þannig telur Persónuvernd að farið hafi verið að ákvæðum persónuverndarlöggjafarinnar í meginatriðum í tengslum við skimanir fyrir COVID-19 og mótefnum við kórónuveirunni.  Vinnslusamningur sem sóttvarnalæknir gerði við Landspítala hafi þó ekki samrýmast núgildandi löggjöf að öllu leyti og er honum því falið að gera nýjan vinnslusamning. 

Persónuvernd telur sömuleiðis að ekkert liggi fyrir að öryggi persónuupplýsinga sem unnar voru á starfsstöð Íslenskrar erfðagreiningar hafi verið ábótavant.  Ráðist var í úttekt á öryggi persónuupplýsinga hjá þeim hluta sýkla-og veirufræðideildar Landspítalans sem staðsettur var á starfsstöð Íslenskrar erfðagreiningar frá ágúst á síðasta ári til febrúar á þessu ári. Persónuvernd telur engu að síður að mat á áhrifum á persónuvernd hafi ekki verið fullnægjandi.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV