Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óvíst að Bjarni klári kjörtímabilið í fjármálaráðuneyti

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RUV
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segist vel geta hugsað sér að skipta um ráðuneyti á miðjum kjörtímabili.

Þótt ný ríkisstjórn hafi tekið formlega til starfa í gær er ljóst að það verða breytingar á henni á kjörtímabilinu þegar Guðrún Hafsteinsdóttir tekur við dómsmálaráðuneytinu af Jóni Gunnarssyni. Bjarni útilokar ekki frekari breytingar á ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins og sjálfur gæti hann hugsað sér að skipta um ráðuneyti.

„Ég verð bráðum búinn að flytja tíu fjárlagafrumvörp, mér sýnist að ég sé að fara að flytja fjárlagafrumvarpið í níunda skipti núna og það skulum við bara láta koma í ljós. Ég útiloka ekkert að það verði breyting á því en við erum ekki að taka ákvörðun um það núna,“ segir Bjarni.

Bjarni hefur gegnt embætti fjármálaráðherra frá árinu 2013,  ef frá eru taldir þeir átta mánuðir sem hann gegndi embætti forsætisráðherra í skammlífri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Hann segist ekki farinn að íhuga að hætta í pólitík. „Svona þegar ég horfi tilbaka þá hafa flestir fréttamenn sem hafa spurt mig að þessu sjálfir dregið sig í hlé og það koma alltaf nýir og nýir og spyrja hvort ég sé að fara að draga mig í hlé. Þú spyrð hvort ég ætli að vera út kjörtímabilið í fjármálaráðuneytinu og það væri uppsafnað talsvert langur tími ef ég gerði það. Þannig að svarið mitt við þeirri spurningu er að það er ekkert alveg víst að ég verði til loka kjörtímabilsins í fjármálaráðuneytinu. Kannski myndi ég flytja mig í annað ráðuneyti.“

Magnús Geir Eyjólfsson