Ólst upp í skútu og er heilluð af hafinu

Mynd: Halla Ólafsdóttir / RÚV/Landinn

Ólst upp í skútu og er heilluð af hafinu

29.11.2021 - 08:52

Höfundar

„Það gerist svo mikil orka þarna út á sjónum og það heillar mig rosalega að allt getur gerst,“ segir Tara Ósk Markúsdóttir, sautján ára nemi í vélstjórn. Hún er ein fárra kvenna í náminu en konur eru aðeins um tvö prósent útskrifaðra úr vélstjórn í Tækniskólanum. „Ég ætla að taka þessa þekkingu og reyna að fá vinnu út á sjó,“ segir Tara.

Fimm manna fjölskylda í skútu

Sjórinn er Töru ekki framandi. Hún er líklega ein fárra Íslendinga sem hefur alist upp á sjó, - í skútunni Sæúlfi. „Hér er bara stofan og eldhúsi og skrifborðið allt í sama rýminu,“ segir Tara. „Ég var sex ára þegar ég man eftir að ég hafi labbað inn í hana í Reykjavíkurhöfn. 

Landinn kíkti í heimsókn til Töru. Flestu bjuggu þau fimm í skútunni en nú eru eldri bræður Töru fluttir út. Það getur verið hentugt að búa í farartæki og skútan Sæúlfur hefur ekki aðeins legið við bryggju í Hafnarfirðinum. „Það hafa verið þrjár árslangar ferðir -og það hefur bara verið þegar eitthvert af systkinum er í níunda bekk,“ því hefur Tara Ósk varið þremur árum af ævi sinni í árslangar ferðir á siglingu. „Ég er bara svo heppin að vera yngst,“ segir hún.  

Var fljótt farin að sigla

Tara var kornung farin að læra handtökin í siglingum, hnýta hnúta, toga í spotta og snúa sveifum. „Pabbi kenndi mér að binda hnúta þótt ég kynni ekki að nota þá en ég var farin að fatta hvað þetta gekk út á þegar ég var svona átta ára og svo fór ég að stunda keppnissiglingar þegar ég var 13-14 ára og þá fer maður að læra þetta dýpra, og skilja af hverju eitthvað gerist en ekki hvernig það gerist.“

Fiskiskip, ísbrjótur eða olíuborpallur

En hvernig ætlarðu að tvinna þetta saman við vélstjórn? „Mig langar bara að vinna út á sjó, eitthvað útá sjó, vera út á sjó, sama hvort það verður að vinna á fiskiskipi eða ísbrjót eða olíuborpalli eða eitthvað bara vera á sjónum,“ segir Tara Ósk. 

Hér má horfa á Landann í heild sinni