Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Heimilar töku allt að 600 tonna af merarblóði á ári

29.11.2021 - 06:44
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Umhverfisstofnun hefur auglýst tillögu að nýju starfsleyfi fyrir líftæknifyrirtækið Ísteka, sem framleiðir hráefni í frjósemislyf úr blóði fylfullra hryssa. Í tillögunni er gert ráð fyrir að Ísteka fái heimild til að framleiða allt að 20 kílógrömm af lyfjaefni á ári úr allt að 600 tonnum - nær 600.000 lítrum - af blóði úr hryssum. Litlar sem engar líkur eru á að þetta verði nýtt að fullu þar sem íslenski hrossastofninn er einfaldlega of lítill til að standa undir svo mikilli blóðtöku.

Í tillögu Umhverfisstofnunar kemur fram starfsleyfið nái yfir allt í senn forvinnslu efnisins,  áframhaldandi vinnslu þess og einangrun lokaafurðar. Frjósemislyfin sem unnin eru úr þeirri afurð eru einkum nýtt í svínarækt.

Nýtt leyfi gildi til 2038

Í umsókn Ísteka um nýtt starfsleyfi frá því í desember 2020 kemur fram að fyrra leyfi var gefið út í janúar 2009 og að það hefur runnið út 13. janúar á þessu ári. Í tillögu Umhverfisstofnunar að nýju starfsleyfi er kveðið á um að það gildi til ársins 2038.

Umdeild starfsemi sem hefur vaxið hratt og mikið

Töluvert hefur verið fjallað um starfsemi og starfshætti Ísteka í fjölmiðlum að undanförnu og afar harðneskjulegar aðfarir nokkurra samstarfsaðila fyrirtækisins við blóðtöku úr merunum hafa sætt harðri gagnrýni.

Í umfjöllun Bændablaðsins frá því í desember í fyrra kemur fram að starfsemi Ísteka, sem fyrst fékk stafsleyfi árið 1986, hafi tekið stökk þegar það tók að sér stórt verkefni fyrir erlendan aðila árið 2019 og velta fyrirtækisins aukist um 80 prósent á milli ára.

Ólíklegt og jafnvel ómögulegt að starfsleyfið verði fullnýtt

Haft er eftir Arnþóri Guðlaugssyni framkvæmdastjóra að allt að fimm lítrar af blóði séu teknir úr hryssunum hverju sinni, og að hverri hryssu sé tekið blóð 5 - 6 sinnum á sumri að meðaltali, mest þó átta sinnum.

Samkvæmt þessum forsendum gerir starfsleyfið því ráð fyrir blóðtöku úr allt að 20.000 fylfullum hryssum á ári. Af því má ráða að Ísteka vilji hafa vaðið fyrir neðan sig, því ólíklegt og í raun ómögulegt má heita að svo margar fylfullar merar fáist til blóðtöku hér á landi.

Stærð hrossastofnsins á reiki

Erfitt er að nálgast áreiðanlegar tölur um stærð íslenska hestastofnsins. Samkvæmt vef Hagstofu Íslands voru hross 58.466 hér á landi árið 2020, og er sú tala byggð á búfjárgagnagrunnum Matvælastofnunar.

Í frétt Bændablaðsins frá 2018 segir að samkvæmt tölum Hagstofunnar hafi hross verið 64.678 árið 2017, en þau hafi að líkindum verið fjórum til átta þúsundum fleiri. Misræmið er sagt skýrast af skorti á talnaupplýsingum frá hestaeigendum, einkum á höfuðborgarsvæðinu.

Hægt að senda inn umsögn til 22. desember

En hvort sem hrossin eru tæplega 60.000 eða rúmlega 70.000 í raun, þá er ljóst að þeim þyrfti að fjölga verulega til að Ísteka geti fullnýtt starfsleyfið sem samkvæmt tilkynningu á vef Umhverfisstofnunar er í umsagnarferli til 22. desember.