Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ekkert sérstök ánægja með formennsku stjórnarandstöðu

„Það var svona ekkert sérstök ánægja með formennskuna í öllum þeim nefndum,“ segir Katrín Jakobsdóttir í Kastljósi í kvöld um þær nefndir sem stjórnarandstaðan fékk formennsku í á síðasta kjörtímabili. Það sé meðal ástæðna fyrir því að stjórnarandstöðuflokkarnir fá aðeins formann í einni nefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Stjórnarandstaðan var að kvarta yfir því að þið sláið af tvo nefndarformenn, þau fá bara formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Fyrir kosningar er talað um að það þurfi að auka virðingu Alþingis og samtalið og samvinnuna á milli stjórnmálaflokka. Af hverju gerið þið þetta? Af hverju byrjið þið svona? „Í fyrsta lagi snýst þetta ekkert um virðingu Alþingis, heldur snýst þetta um hvort flokkarnir ná saman um það hver eigi að gegna formennsku í nefndum. Það var gert á síðasta kjörtímabili, þá var stjórnarandstaðan með þrjár formennskur. Það var svona ekkert sérstök ánægja með formennskuna í öllum þeim nefndum. Auðvitað hafa nefndarformenn mjög mikilvægu hlutverki að gegna við að ljúka ákveðnum málum sem ríkisstjórn á hverjum tíma leggur áherslu á, þannig að það var niðurstaða okkar að bjóða þetta fram. Að stjórnarandstaðan gegni einungis einni formennsku, í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem mér finnst persónulega reyndar að eigi alltaf að vera í höndum stjórnarandstöðu.“

Miklar breytingar voru gerðar á stjórnarráðinu eftir kosningar. Af hverju þurfti að gera svona miklar breytingar á stjórnarráðinu? „Það er nú þannig að þegar maður kemur nýr inn í ríkisstjórn, þá eðli máls samkvæmt er maður ekki að ráðast strax í miklar breytingar, maður fer inn með ákveðna pólitíska stefnumótun og vinnur í því kerfi sem fyrir er. Þar sem við vorum búin að vinna saman í fjögur ár og ákváðum að rugla saman reitum okkar á nýjan leik þá lá það einhvern veginn beint við að við myndum nýta lærdóminn sem við höfum dregið á undangengnum fjórum árum til að endurskipuleggja stjórnarráðið. Persónulega held ég að það sé mjög hollt fyrir stjórnarráð á hverjum tíma að taka ákveðnum breytingum til að það staðni einfaldlega ekki í gamalli verkaskiptingu og sílóum, sem eru því miður kannski allt of algeng í okkar stjórnsýslu. Við erum með stjórnsýslu þar sem það er stundum erfitt að láta ólíkar stofnanir og ráðuneyti vinna saman. Það hefur verið sérstakt verkefni mitt að láta þessa ólíku þætti vinna saman. Ég hef trú á því að þessar breytingar verði til lengri tíma litið góðar til þess að efla samhæfingu í stjórnarráðinu,“ segir Katrín og viðurkennir að það eigi eftir að taka ný ráðuneyti tíma til þess að vinna úr breytingunum. 

Stjórnarsáttmálinn var samþykktur einróma hjá flokksstofnunum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokks, ekki alveg hjá þér. Eftir síðasta stjórnarsáttmála fóru tveir þingmenn úr flokknum á kjörtímabilinu. Var erfitt að selja grasrótinni þetta? „Minn flokkur er þeirrar gerðar að hann ræðir málin lengi, og við ræddum málin lengur en hinir flokkarnir. Það voru 80 prósent sem studdu þennan stjórnarsáttmála, sem er svipað og fyrir fjórum árum. Það kemur mér í sjálfu sér ekki á óvart að fólk vilji ræða málin. Það fór út í ýmis atriði, bæði í sáttmálanum og önnur atriði sem fólk hefði viljað sjá í sáttmálanum. Þetta eru bara við, við tölum bara um mál og leyfum okkur að hafa ólíkar skoðanir á stóru og smáu. Það breytir því ekki að ég held að við förum mjög samhent inn í þetta kjörtímabil.“

Hvernig ætlið þið að fjármagna öll þessi fínu loforð eða þessi markmið sem þið setjið ykkur, eru þetta ekki krefjandi tímar framundan? „Ég myndi nú segja að þessi sáttmáli sé ekki útbólginn af loforðum. Það sem hins vegar er mikilvægt er að við erum að boða að við erum ekki að fara að ráðast í niðurskurð. Við erum ekki að fara að ráðast í skattahækkanir. Við erum að horfa til þess að vaxa út úr kreppunni, sem er eitt af því sem við lögðum áherslu á fyrir kosningar, að við ætluðum ekki að ráðast í óþarfa aðhaldsaðgerðir. Heldur vildum við treysta á það að þær efnahagsaðgerðir sem við gripum til þjónuðu tilgangi sínum, sem væri að veita samfélaginu þessa öflugu viðspyrnu. Við sjáum öll teikn á lofti um að það muni ganga eftir. Þarna eru tiltölulega hófstilltar hugmyndir um að hægt verði að gera ýmislegt betur þegar á líður kjörtímabilið, en ég held að það sé full ástæða til að það geti gengið eftir.“